Jarðhiti

Vegna legu landsins á mótum tveggja jarðskorpufleka er Ísland ríkt af jarðhita.

Krakkar

Talið er að Reykjavík dragi nafn sitt af gufunni sem lagði frá hverasvæðunum í Laugardal. Rétt austan við höfuðborgina liggur eldvirkt gosbelti sem nýtt er með virkjunum á Nesjavöllum og Hellisheiði. Jarðhitinn er endurnýjanleg auðlind. Gæta þarf að því að nýting hans á hverjum stað sé ekki of ágeng með tilliti til þess hversu hröð endurnýjunin er.

Vinnslu úr jarðhita fylgir sú ábyrgð að hún hafi sem minnst neikvæð áhrif á umhverfi og lífríki. Til þess er haft samráð við fjölda hagsmunaaðila virkjanarekstursins.

Til að hitinn berist úr jarðskorpunni til yfirborðs þarf vatn. Flestar hitaveitur landsins nota jarðhitavatnið beint úr jörðinni. Þannig var vatnið úr Þvottalaugunum í Laugardal fyrst nýtt til að hita hús í Reykjavík árið 1930. Innan eldvirka beltisins er jarðhitagufa notuð til að hita upp kalt vatn fyrir hitaveitur. Gufan er líka notuð til rafmagnsvinnslu.

Orkuveita Reykjavíkur hefur tryggt sér jarðhitaréttindi víða til að gegna hlutverki sínu en hitaveiturnar eru umfangsmesti veitureksturinn á vegum fyrirtækisins.

Uppbygging og rekstur hitaveitna er í höndum Veitna ohf. Smelltu hér til að fræðast meira um hitaveitur Veitna.

Orka náttúrunnar ohf. nýtir jarðhitann á Hengilssvæðinu í tveimur virkjunum. Smelltu hér til að fræðast meira um virkjanir ON.

Hagnýting jarðhitans hér á landi verður sífellt fjölbreyttari. Markmið þessarar fjölnýtingar er í senn að nýta betur orkuna sem fæst úr jarðhitasvæðunum og nota þau efni sem koma upp með jarðgufunni. Orka náttúrunnar rekur sérstakt þróunarsvæði við Hellisheiðarvirkjun í þessu skyni.

Smelltu hér til að fræðast um Jarðhitagarð ON.