Skipulag Vísinda- og frumkvöðlasjóðs Orkuveitunnar

1.gr. - Nafn og lögheimili
1.1 Vísinda- og frumkvöðlasjóður Orkuveitunnar (VOR) er sjóður í eigu Orkuveitunnar sameignarfyrirtækis.

1.2 Lögheimili sjóðsins er að Bæjarhálsi 1 í Reykjavík.

2.gr. - Hlutverk
2.1 Sjóðurinn er vísinda-, rannsókna- og frumkvöðlasjóður sem stendur fyrir og eflir rannsóknir sem tengjast starfssviði fyrirtækisins með áherslu á tengingu við stefnu Orkuveitunnar og markmiði hennar að vera aflvaki fyrir sjálfbærni og skapandi orku í samfélaginu. Hér má lesa nánar um stefnu Orkuveitunnar.

3.gr. - Markmið
3.1 Að stuðla að og styrkja rannsóknir á starfssviði fyrirtækisins með tengingu við stefnu fyrirtækisins og færa fyrirtækið nær því að vera aflvaki sjálfbærrar framtíðar.

3.2 Að styrkja rannsóknir og verkefni tæknifræði-,meistara- og doktorsnema sem tengjast starfssviði og áherslum Orkuveitunnar.

3.3 Að styðja við frumkvöðlaverkefni og hugmyndir á sviði orku-, veitu-, og sjálfbærni með fjármagni.

3.4 Að veita stuðning til styrkþega með vinnuaðstöðu og/eða ráðgjöf til að efla samstarf við frumkvöðla og samfélag.

4.gr. - Úthlutun styrkja og umsóknir
4.1 Stjórn sjóðsins setur úthlutunarreglur sem styðja við markmið sjóðsins.

4.2 Veittir eru; námstyrkir, rannsóknarstyrkir, verkefnastyrkir, styrkir í frumkvöðla- og nýsköpunarverkefni og samstarfsverkefni við Orkuveituna.

4.3 Hluti af styrk Orkuveitunnar getur einnig falist í aðstöðu og ráðgjöf.

5.gr. - Tekjur sjóðsins
5.1 Stofnframlag sjóðsins var eitt hundrað milljónir króna – kr. 100.000.000,- sem greiddist af Orkuveitunni.

5.2 Árlegt framlag Orkuveitunnar til sjóðsins er ákveðið af stjórn Orkuveitunnar ár hvert.

5.3 Tekjur af einkaleyfum sem verða til vegna rannsókna sem styrktar eru af sjóðnum.

5.4 Stjórn sjóðsins er heimilt að skilyrða styrkveitingar til verkefna, því að ákveðin hlutdeild í tekjustreymi sem skapast vegna verkefnisins eða einkaleyfa á uppgötvunum renni til sjóðsins.

5.4 Aðrar tekjur eða framlög sem skapast af starfsemi sjóðsins.

6.gr. - Rekstrarkostnaður
6.1 Rekstrarkostnaður skal greiddur af ráðstöfunarfé sjóðsins.

7.gr. - Stjórn sjóðsins, fagráð og skipulag
7.1 Stjórn sjóðsins hefur æðsta vald í málefnum sjóðsins. Í stjórn sitja forstjóri Orkuveitunnar sem er formaður stjórnar ásamt forstöðukonu rannsókna og nýsköpunar og forstöðukonu frumkvöðlaseturs og vísindamiðlunar. 

7.2 Stjórn sjóðsins skipar fagráð.

7.3 Fagráð sjóðsins skipa forstöðukona Nýsköpunar sem er formaður fagráðs ásamt sérfræðingum á sviðum Orkuveitunnar og dótturfélaga.

7.4 Fagráðið útfærir umsóknarferlið samkvæmt úthlutunarreglum, stýrir umsóknarferlinu og rýni umsókna og gerir tillögu til stjórnar sjóðs um úthlutun. 

7.5 Stjórn sjóðsins ákveður úthlutun styrkja.

7.6 Skipurit sjóðsins má sjá á eftirfarandi mynd:

Skipurit VOR sjóðs

Reykjavík, 22.nóvember 2024