Forstjóri hefur á hendi framkvæmd stefnu stjórnar fyrirtækisins. Hann skipuleggur starfsemi fyrirtækisins og tryggir að það starfi í samræmi við tilgang þess. Forstjóri ber ábyrgð gagnvart stjórn fyrirtækisins á hinum daglega rekstri. Forstjóri skal sitja stjórnarfundi og er handhafi eigendavalds í dótturfélögum.
Forstjóri skipuleggur reksturinn í samræmi við samþykktir félagsins, lög og reglur, skuldbindingar, kröfur og venjur. Hann felur stjórnendum að greina áhættur, leita tækifæra og setur lykilárangursmælikvarða í samvinnu við stjórn og starfsmenn. Forstjóri sér til þess að meðferð eigna fyrirtækisins sé með tryggilegum hætti.
Forstjóri annast allan daglega rekstur fyrirtækisins, allar framkvæmdir og undirbúning þeirra, sjóðsvörslu og reikningshald og ráðningu starfsliðs. Hann tryggir fjármagn til rekstrar og samhæfir störf undirmanna sinna.
Forstjóri kemur fram fyrir hönd fyrirtækisins í öllum málum sem varða venjulegan rekstur og tryggir samskipti við hagsmunaaðila.
Daglegur rekstur tekur ekki til ráðstafana sem eru óvenjulegar eða mikils háttar. Til óvenjulegra og mikilsháttar ákvarðana teljast t.d. ráðstafanir sem samræmast ekki stefnu og áætlunum fyrirtækisins á hverjum tíma. Slíkar ráðstafanir getur forstjóri aðeins gert samkvæmt sérstakri heimild frá stjórn, nema að ekki sé unnt að bíða ákvörðunar stjórnar án verulegs óhagræðis fyrir starfsemi fyrirtækisins. Í slíkum tilvikum skal stjórn tafarlaus tilkynnt um ráðstöfunina.
Kaup og sala fastafjármuna og hlutabréfa skal ávallt vera háð samþykki stjórnar.
Forstjóri hefur eftirlit með rekstri fyrirtækisins. Honum ber að veita stjórn og endurskoðendum reglulega upplýsingar um rekstur fyrirtækisins og aðrar upplýsingar sem þeir óska eftir. Forstjóri upplýsir stjórn um árangur og frávik frá áætlunum.
Forstjóri stuðlar að stöðugum umbótum í rekstri.