Aðalfundur Orkuveitu Reykjavíkur

28. jún 2018

Orkuveitan

Í dag var haldinn aðalfundur Orkuveitu Reykjavíkur vegna ársins 2017. Kjöri stjórnar var lýst á fundinum. Í henni sitja Brynhildur Davíðsdóttir, sem er formaður stjórnar, Gylfi Magnússon, varaformaður, Sigríður Rut Júlíusdóttir, Kjartan Magnússon, Hildur Björnsdóttir og Guðjón Viðar Guðjónsson. Áheyrnarfulltrúi er Halldóra Lóa Þorvaldsdóttir. Samþykkt var arðgreiðsla að fjárhæð 1.250 milljónir króna að því gefnu að arðgreiðsluskilyrði verði uppfyllt fyrir og eftir arðgreiðslu.

Á fundinum var Ársskýrsla OR 2017 kynnt. Hún er rafræn og gagnvirk og nær til umhverfisþátta í starfsemi samstæðu OR, samfélagsþátta, stjórnhátta og fjármála. Skýrslan og ársreikningur samstæðu OR 2017 voru gefin út 8. mars síðastliðinn. Ársreikningurinn var staðfestur á fundinum.

Tengill á Ársskýrslu OR 2017

Endurskoðunarfyrirtækið Grant Thornton var kosið endurskoðunarfyrirtæki OR á fundinum.

Þrjú sveitarfélög eiga Orkuveitu Reykjavíkur; Reykjavíkurborg (93,539%), Akraneskaupstaður (5,528%) og Borgarbyggð (0,933%). Stjórnendur þeirra - Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri og Gunnlaugur A. Júlíusson sveitarstjóri lögðu fram þessa sameiginlegu bókun á aðalfundinum:

Ársreikningur samstæðu OR staðfestir að mikill árangur hefur náðst í rekstri og er fjárhagurinn traustur og heilbrigður. Það er ljóst að OR hefur að fullu tekist að leysa þann fjárhagsvanda sem fyrirtækið glímdi við í kjölfar hrunsins og árangurinn hefur þegar skilað viðskiptavinum lækkun á gjaldskrám og eigendum arði af eignum sínum. Ársreikningur samstæðunnar staðfestir að unnt er að halda áfram á þeirri braut.  Aðalfundur lýsir ánægju með góðan árangur í rekstri og þakkar starfsfólki, stjórnendum og stjórn fyrirtækisins fyrir árangurinn. 

Eigendur lýsa ánægju sinni með tillögu að fjárhagslegum skilyrðum fyrir gjaldskrárlækkanir og arðgreiðslur. Mikilvægt er einnig að móta framtíðarsýn fyrir efnahag og fjárhagsskipan samstæðunnar svo sem fyrir eiginfjárhlutfall og greiðsluflæði.

OR er umhverfisfyrirtæki sem umgengst auðlindir og nýtingu þeirra með samfélagslega ábyrgð að leiðarljósi.  Mikilvægt er að fyrirtækið haldi áfram að tryggja aðgengi að hreinu vatni, sjálfbæra og sporlausa vinnslu háhitans og að OR beiti sér fyrir heilnæmara umhverfi á starfssvæðinu svo sem með fjárfestingum í fráveitu, notkun umframvatns fyrir ylstrendur og átaki til að stuðla að orkuskiptum í samgöngum með snjöllum og afgerandi aðgerðum. Eigendur fela stjórn að móta framtíðarsýn sem styður þessi atriði.