12. mar 2021
OrkuveitanRekstur OR samstæðunnar var traustur árið 2020 og tekjur jukust frá fyrra ári, aðallega vegna aukinnar sölu á heitu vatni. Köld tíð og fjölgun húsa sem tengd eru hitaveitu ollu um 10% vexti heitavatnsnotkunar milli áranna 2019 og 2020, sem er fáheyrð aukning á einu ári. Fjárfestingar voru miklar en þó minni en áætlað var. Lausafjárstaða OR er mjög sterk. Framlegð rekstursins (EBITDA) og rekstrarhagnaður (EBIT) voru meiri á árinu 2020 en 2019 en heildarniðurstaða ársins var jákvæð um ríflega 5,6 milljarða króna samanborið við 6,9 milljarða árið áður.
Í samstæðu OR eru, auk móðurfélagsins; Veitur, Orka náttúrunnar, Gagnaveita Reykjavíkur, sem rekur Ljósleiðarann, og nú í fyrsta skipti Carbfix, nýtt þróunarfélag um lausnir í loftslagsmálum.
Ársskýrsla OR 2020 kemur líka út í dag. Hún er samþætt í samræmi við alþjóðleg viðmið um samfélagsábyrgð. Í henni er gerð ítarleg grein fyrir umhverfisþáttum rekstursins, samfélagslegum áhrifum hans og þeim stjórnháttum, sem samstæða OR starfar eftir. Hér er tengill á Ársskýrsluna.
Fjárhagsleg og menningarleg endurskipulagning samstæðu Orkuveitu Reykjavíkur undanfarinn áratug hefur skilað okkur því að nú getum við lagt lóð á vogarskálarnar þegar kemur að viðspyrnu gegn kórónuveirunni og áhrifum hennar á samfélagið. Reksturinn er traustur, afkoma fyrirsjáanleg og við höfum getað lækkað gjaldskrár vatnsveitu og rafveitu umtalsvert síðustu ár. Gjöld fyrir hitaveitu og fráveitu hafa nánast fylgt verðlagi á sama tíma.
Það skiptir líka máli, nú þegar ríki og sveitarfélög eru að glíma við samdrátt vegna kórónuveirunnar, að verulega hefur dregið úr ábyrgðum sveitarfélaganna sem eiga Orkuveituna á lánum hennar. Síðasta áratuginn hefur hlutfall lána með slíkum ábyrgðum minnkað úr rúmum 90% í 46%. Við stefnum að því að hætta alveg lántöku með ábyrgðum eigenda. Þá hefur OR nú greitt að fullu neyðarlán sem eigendur veittu fyrirtækinu árið 2011 að fjárhæð 12 milljarðar króna. Skattaspor samstæðunnar fyrir síðasta ár hefur verið reiknað. Það nam 8,8 milljörðum króna. Við erum stolt af rekstri sem skilar slíkum fjárhæðum til samfélagsins.
Kórónuveirufaraldurinn hafði margvísleg áhrif á rekstur OR samstæðunnar á árinu. Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur ákvað að nýta styrk samstæðunnar til að bregðast við efnahagssamdrætti í landinu. Fleira sumarfólk var ráðið og fleiri tímabundnir starfsmenn. Auknu fé var varið til fjárfestinga en viðspyrnufjárfestingar, sem nema um 6 milljörðum króna, skiptast á árin 2020 og 2021 og er dreift um starfssvæði samstæðunnar á suðvesturhorni landsins.
Rekstrargjöld jukust í takti við þróun verðlags og launa þrátt fyrir að kórónuveirunni hafi fylgt aukin útgjöld af ýmsu tagi. Mikilvægi þeirrar grunnþjónustu sem Orkuveitufyrirtækin veita kallar á strangari smitvarnir en almennt í samfélaginu.
Nauðsynlegur undirbúningur ýmissa framkvæmda tafðist á árinu 2020, að einhverju leyti vegna faraldursins, og gengu ekki öll áform eftir. Fjárfestingar samstæðunnar 2020 námu 16,8 milljörðum króna en voru 19,4 milljarðar árið 2019. Áætlanir gera ráð fyrir auknum fjárfestingum á þessu ári. Auk hefðbundinna viðhalds- og endurnýjunarfjárfestinga í virkjunum og veitukerfum verður aukinn þungi í viðspyrnufjárfestingum. Útskipting 160.000 mæla hita-, vatns- og rafveitu er að hefjast en öllum hefðbundnum mælum verður skipt út fyrir svokallaða snjallmæla á næstu árum. Þá styttist í að endurbygging vesturhúss OR við Bæjarháls hefjist.
2015 | 2016 | 2017 | 2018 | 2019 | 2020 | eining | |
Rekstrartekjur | 40.312 | 41.423 | 43.666 | 45.916 | 46.570 | 48.627 | millj.kr. |
Rekstrargjöld | (15.183) | (16.062) | (17.285) | (17.299) | (18.398) | (19.172) | millj.kr. |
EBITDA | 25.174 | 25.361 | 26.380 | 28.617 | 28.172 | 29.454 | millj.kr. |
EBIT | 14.428 | 14.968 | 17.318 | 18.346 | 16.051 | 16.398 | millj.kr. |
Óútsk. kynb. launam. | 2,3% | 2,1% | 0,2% | 0,0% | 0,1% | 0,0% | Hlutfall |
Starfsánægja | 4,3 | 4,4 | 4,4 | 4,4 | 4,3 | 4,4 | Einkunn 1-5 |
Heitt vatn | 83 | 78 | 94 | 101 | 101 | 110 | millj.m3 |
Rafmagnsvinnsla | 3.249 | 3.411 | 3.473 | 3.507 | 3.536 | 3.581 | GWst |
Kalt vatn | 29 | 30 | 29 | 28 | 29 | 26 | millj.m3 |
Gagnamagn um Ljósleiðarann | 122.000 | 155.000 | 180.000 | 216.000 | 260.000 | 345.000 | Terabæt |
Kolefnisspor* | 67.100 | 45.450 | 42.700 | 45.450 | 48.750 | 50.550 | tn. CO2-ígilda |
Hlutfall visthæfra bíla | 19% | 34% | 34% | 39% | 42% | 48% | Hlutfall |
*Kolefnisspor samstæðunnar jókst á árinu 2020 vegna borholu með mikinn CO2 styrk í gufu og tengd var Hellisheiðarvirkjun. Stefnt er að bindingu allrar losunar frá virkjunum.