Fjárhagur styrkist, fjárfestingar aukast og verð á þjónustu lækkar

3. okt 2016

Orkuveitan

Fjárhagur Orkuveitu Reykjavíkur og dótturfélaga mun halda áfram að styrkjast á næstu árum þrátt fyrir talsverðar fjárfestingar og lækkun á gjaldskrám nú um áramótin. Þetta kemur fram í fjárhagsspá fyrir árin 2017 til 2022 sem stjórn fyrirtækisins samþykkti í dag. Nettóskuldir munu lækka um þriðjung á árabilinu. Fjárhagsspáin er fyrir OR og dótturfélög. Veigamest þeirra eru Veitur ohf., Orka náttúrunnar ohf. og Gagnaveita Reykjavíkur ehf.

Fjárhagspá samstæðu OR 2017 og fimm ára spá 2018-2022

Verðskrár lækka um áramót

Planið sem OR hefur unnið eftir frá árinu 2011 rennur sitt skeið í árslok 2016. Ráðdeild í rekstri sem Planinu fylgdi er orðinn stjórnendum og starfsfólki töm og hluti þeirrar menningar sem byggð hefur upp innan samstæðunnar.

Viðskiptavinir munu njóta þessa beint. Nú um áramót mun verð raforkudreifingar lækka sem og vatnsgjaldið sem fasteignaeigendur greiða fyrir kalda vatnið. Hagræðing í rekstrinum hefur leitt til aukinnar arðsemi þessara sérleyfisþátta sem lúta lögum um hámarksarðsemi. Breyttar verðskrár verða kynntar í desember. Veitur sjá um rafmagnsdreifingu frá miðjum Garðabæ í suðri til Akraness í norðri og þjóna um helmingi landsmanna. Vatnsveitur Veitna eru í fimm sveitarfélögum og þjóna um 40% landsmanna. Miklar fjárfestingar í fráveitum og hitaveitum leyfa ekki lækkun á verði þeirrar þjónustu.

Gert ráð fyrir arðgreiðslum

Hluti Plansins er að eigendum OR – Reykjavíkurborg, Akraneskaupstað og Borgarbyggð – hefur ekki verið greiddur arður af eign sinni í fyrirtækinu. Í þessari fjárhagsspá er gert ráð fyrir arðgreiðslum til eigenda OR á árinu 2018. Áður en til þeirra kemur þarf að liggja fyrir að fjárhagur OR standist þau arðgreiðsluskilyrði sem eigendur samþykktu árið 2015 og álagspróf sem gert verður á rekstrinum með tilliti til arðgreiðslna. Það er svo í höndum eigenda OR að ákveða á aðalfundi hvort arður verður greiddur. Gert er ráð fyrir að arðgreiðslur aukist smátt og smátt eftir því sem greiðslubyrði af lánum minnkar.

Talsverðar fjárfestingar

Fjárfestingar OR samstæðunnar

Endurnýjun mikilvægra stofnæða í öllum veitukerfum heldur áfram. Þar má nefna meginhitaveituæðar höfuðborgarsvæðisins, Vesturlands og á Suðurlandi og endurnýjun mikilvægra burðarvirkja í raforkudreifingu, það er aðveitustöðva og dreifistöðva. Uppbyggingu nýrra fráveitna á Vesturlandi verður að mestu lokið fyrir árslok 2016. Þetta stóra umhverfisverkefni þýðir að fráveiturnar þar munu standast kröfur og heildarfjárfestingaþörf fráveitna minnkar. Stækkun nets Ljósleiðara til nærsveita Reykjavíkur verður haldið áfram á næstu árum þannig að öll heimili á svæðinu geti keypt 1.000 megabita flutningshraða af fjarskiptafyrirtækjunum. Þéttbýli Kópavogs verður fulltengt 2017 og Hafnarfjörður og Garðabær klárast fyrir árslok 2018.

Gufuöflun fyrir Hellisheiðarvirkjun er aðkallandi. Ljóst er að jarðhitasvæðin næst virkjuninni anna ekki fullum afköstum hennar. Gufulögnin frá háhitasvæðinu í Hverahlíð, sem tekin var í notkun í upphafi þessa árs, flytur nú gufu sem stendur undir 50 MW rafmagnsvinnslu í Hellisheiðarvirkjun. Meira þarf til og gerir áætlunin ráð fyrir ríflega 20 milljarða króna kostnaði við gufuöflun fyrir Hellisheiðarvirkjun á næstu 6 árum auk 5 milljarða króna vegna niðurdælingar á vinnsluvatni frá virkjuninni. Unnið er að gerð nákvæmra forðalíkana af Hengilssvæðinu.

Skuldir greiddar niður

Árlegar afborganir lána og vaxtagreiðslur eru áætlaðar frá 15 milljörðum til 20 milljarða króna á árunum 2017 til og með 2022. Þær fjárfestingar sem áformaðar eru verða að mestu fjármagnaðar með fé frá rekstri en að hluta með nýju lánsfé. Gert er ráð fyrir að nettóskuldir OR lækki um rúma 40 milljarða króna á árabili spárinnar, eða 32%.

Þróun skulda 2009-2022

Hlutfall nettóskulda og EBITDA sýnir hversu mörg ár það tæki að greiða skuldir OR að fullu væri framlegðinni eingöngu varið til þess. Hlutfallið var 18 í árslok 2009, 5,3 samkvæmt útkomuspá 2016 og 2,7 í árslok 2022, gangi þessi fjárhagsspá eftir.

Fjárhagsspá OR 2017 og langtímaspá 2018-2022 fara til umfjöllunar hjá Reykjavíkurborg sem hluti af fjárhagsáætlun samstæðu borgarinnar.

Fjárhagsspá

Við gerð þessarar fjárhagsspár OR halda fyrirtækin innan samstæðunnar áfram á braut stefnumiðaðrar spágerðar (Beyond budgeting). Í aðferðinni felst að hefðbundin áætlanagerð er einfölduð og afkomuspár eru tíðari. Hún felur í sér að stjórnendur og starfsfólk ber aukna ábyrgð í fjármálum og daglegum rekstri og styðst þar við skráða stefnu fyrirtækjanna og skýra markmiðssetningu. Til samræmis við þessa þróun vinnubragða heitir viðhengt skjal Fjárhagsspá en ekki Fjárhagsáætlun eins og fyrri ár.