Góð afkoma OR á fyrri hluta ársins

22. ágú 2016

Orkuveitan

Afkoma Orkuveitu Reykjavíkur (OR) er stöðug og góð. Á fyrri helmingi ársins 2016 skilaði reksturinn 5,0 milljarða króna hagnaði. Á sama tímabili 2015 var 2,3 milljarða króna hagnaður. Viðvarandi sparnaður í rekstri og hagstæð gengisþróun eiga þátt í bættri afkomu. Launakostnaður hefur hækkað í samræmi við nýlega kjarasamninga. Nettó vaxtaberandi skuldir OR lækkuðu um 9,0 milljarða króna á fyrri hluta ársins.

Árshlutareikningur samstæðu OR 2016 var samþykktur af stjórn fyrirtækisins í dag.

OR Árshlutareikningur samstæðu F2 2016

Lykiltölur fjármála OR F2 2016

Planinu lýkur um áramót

Snemma árs 2011 samþykktu stjórn OR og eigendur fyrirtækisins sérstaka áætlun vegna bágrar fjárhagsstöðu, kölluð Planið. Það nær til ársloka 2016. Meginmarkmið þess var að bæta sjóðstöðu fyrirtækisins um rúma 50 milljarða króna á tímabilinu. Því marki var náð strax um mitt síðasta ár. Í lok júní 2016 nam árangurinn 57,1 milljarði króna. Planið fól meðal annars í sér verulegan og varanlegan sparnað í rekstri og að gjaldskrár héldu verðgildi sínu á gildistíma þess. Þær höfðu rýrnað verulega á árunum í kringum fjármálahrunið. Eigendur OR ákváðu einnig að á gildistíma Plansins yrði ekki greiddur arður af rekstri OR.

Stöðuskýrsla aðgerðaáætlunar F2 2016

Gjaldskrár lækka um áramót

Um næstu áramót sjá Veitur, dótturfyrirtæki OR sem sér um veiturekstur samstæðunnar, fram á að lækka gjaldskrár fyrir rafmagnsdreifingu og kalt vatn. Miklar fjárfestingar í fráveitum og hitaveitum munu ekki leyfa lækkun á þeim gjaldskrám. Veitur sjá um rafmagnsdreifingu frá miðjum Garðabæ í suðri til Akraness í norðri og þjóna um helmingi landsmanna. Vatnsveitur Veitna eru í fimm sveitarfélögum og þjóna um 40% landsmanna.

Bjarni Bjarnason, forstjóri

Rekstur Orkuveitu Reykjavíkur og dótturfélaganna gengur prýðilega. Þjónustan er traust, afkoman er góð, skuldir að minnka og fjárhagurinn allur að styrkjast. Það er ákaflega gleðilegt að góður árangur í rekstrinum geri okkur fært að lækka gjaldskrár strax við lok Plansins. Þannig munu viðskiptavinir njóta þess mikla árangurs sem náðst hefur. Við gerð áætlana fyrir næstu ár munum við meta hvort þau fjárhagslegu skilyrði sem eigendur OR settu fyrir arðgreiðslum verði uppfyllt. Reykjavíkurborg, Akranes og Borgarnes stóðu þétt við bakið á fyrirtækinu í þeim þrengingum sem það rataði í og tímabært að eigendurnir njóti ávaxtanna.

Rekstraryfirlit stjórnenda
Fjárhæðir eru í milljónum króna H1 2012 H1 2013 H1 2014 H1 2015 H1 2016
Rekstrartekjur 19.287 20.111 18.234 20.479 20.955
Rekstrarkostnaður (6.560) (6.679) (6.379) (7.443) (8.215)
þ.a. orkukaup og flutningur (2.377) (2.668) (2.530) (3.256) (3.133)
EBITDA 12.727 13.432 11.855 13.036 12.741
Afskriftir (4.585) (4.496) (4.331) (4.799) (5.303)
Rekstrarhagnaður EBIT 8.142 8.936 7.524 8.237 7.438
Afkoma tímabilsins (924) 3.736 3.831 2.260 5.029
Sjóðstreymi:
Innleystar vaxtatekjur 40 81 359 252 57
Greidd vaxtagjöld (2.805) (2.473) (2.560) (2.215) (1.890)
Handbært fé frá rekstri 9.988 10.059 10.953 11.042 11.774
Veltufé frá rekstri 10.067 11.174 9.533 10.501 10.617