Mannaflafrekar fjárfestingar framundan

5. okt 2020

Orkuveitan

Fjárhagsspá Orkuveitu Reykjavíkur gerir ráð fyrir að næstu sex árin verði 108 milljörðum króna varið í viðhald og nýjar fjárfestingar á vegum samstæðunnar. Fjárhagsspá samstæðu OR fyrir árabilið 2021-2026 var samþykkt af stjórn OR í dag. Í samstæðu OR eru, auk móðurfélagsins; Veitur, Orka náttúrunnar, Gagnaveita Reykjavíkur og Carbfix.

Mannaflafrekar viðspyrnufjárfestingar

Fjárhagur Orkuveitu Reykjavíkur og dótturfyrirtækjanna er traustur og engra stórra breytinga að vænta í tekjum eða gjöldum á næstu árum samkvæmt spánni. Nú í vor var frá því greint að Veitur hygðust ráðast í sérstakar viðspyrnufjárfestingar vegna Covid-19 faraldursins. Áformin koma nú inn í opinbera fjárhagsspá OR-samstæðunnar og nema um fjórum milljörðum króna á árinu 2021. Talið er að 200 störf á sunnan- og vestanverðu landinu skapist hjá verktökum við þetta átak, án þess að starfsfólki Veitna fjölgi.

Allsherjaruppfærsla á orkumælum Veitna er stærsta einstaka fjárfestingarverkefnið á tímabilinu. Undirbúningur þess hefur staðið um hríð en skiptin yfir í snjallmæla munu taka tvö til þrjú ár. Um 25 iðnaðarmenn munu að jafnaði starfa við útskiptin sjálf auk fleira fólks í ýmsum stuðningi við verkefnið.

Sjóðstreymi OR 2021-2026

Bjarni Bjarnason, forstjóri OR

Ljóst er að heimsfaraldur Covid-19 mun hafa alvarleg áhrif á efnahag samfélagsins næstu misseri og ár. OR samstæðan leggur sitt af mörkum til að spyrna við áhrifum Covid-19 á atvinnulífið og eykur verulega mannaflafrekar framkvæmdir í sveitarfélögum á starfssvæði sínu á sunnan- og vestanverðu landinu. Strax í vor ákváðum við að leggja aukið fé í viðhalds- og nýfjárfestingar í veitukerfunum en samanlögð lengd þeirra er um 14.000 kílómetrar. Það hjálpar okkur í þessu átaki að fjármögnun framkvæmdanna er hagkvæm og þar ræður miklu að fjárhagur Orkuveitu Reykjavíkur er traustur. Við fjárfestum líka í nýsköpun. Orka náttúrunnar heldur áfram að byggja upp Jarðhitagarðinn sem þróunarsvæði atvinnulífs við Hellisheiðarvirkjun í Ölfusi, Ljósleiðarinn sem hraðbraut upplýsinga nær sífellt víðar og einkar spennandi verður að sjá hvernig nýjasta dótturfyrirtækinu, Carbfix, mun ganga að breiða út sína einstöku aðferð við að berjast gegn loftslagsvánni.

Hagsýni verður í fyrirrúmi enda er það grundvallaratriði að reksturinn sé í góðu horfi.

Stiklur úr fjárhagsspánni:

  • Nettó vaxtaberandi skuldir OR lækka um 26 milljarða króna frá árinu 2021 til ársloka 2026 samkvæmt spánni.
  • Tekjuskattur OR til ríkissjóðs verður 11,7 milljarðar króna á tímabilinu.
  • Arðgreiðslur OR til eigenda – Reykjavíkurborgar, Akraneskaupstaðar og Borgarbyggðar – munu nema 20,7 milljörðum kr. á árunum 2021-2026.
  • Verulegur hluti fjárfestinga Veitna er til viðhalds umfangsmiklum veitukerfum fyrirtækisins. Þar á meðal er endurnýjun á aðveituæð hitaveitu Akraness og Borgarness, ný skólpdælustöð við Vogabyggð og viðspyrnufjárfestingar víða á Suður- og Vesturlandi.
  • Fjárfestingar ON miða að því að tryggja áfram góða nýtingu virkjana með traustri gufuöflun og að uppfylla metnað ON í umhverfismálum. Stjórnbúnaður Nesjavalla-virkjunar verður uppfærður, varmastöð á Hellisheiði stækkuð og Jarðhitagarður ON í Ölfusi þróaður frekar.
  • Lagningu Ljósleiðarans til heimila í þéttbýli Reykjanesbæjar, Árborgar og Voga á Vatnsleysuströnd verður lokið á spátímabilinu.
  • Sprotafyrirtækið Carbfix mun halda áfram að byggja upp kolefnishreinsun og -förgun við virkjanir ON.