12. mar 2020
OrkuveitanÁrsreikningur Orkuveitu Reykjavíkur 2019 ber með sér að talsverð umsvif voru í byggingu húsnæðis á helsta starfssvæði fyrirtækisins á árinu. Fjárfestingar voru meiri en undangengin ár, einkum í veitukerfum. Álverð var lágt á árinu og hafði það áhrif á tekjur af raforkusölu til stóriðju. Niðurstaða ársins var jákvæð um 6,9 milljarða króna árið 2019 en var 6,0 milljarðar króna 2018.
Ársreikningur samstæðu OR 2019 var samþykktur af stjórn í dag. Jafnframt samþykkti stjórn að leggja til við aðalfund OR að eigendur fyrirtækisins – Reykjavíkurborg, Akraneskaupstaður og Borgarbyggð – fái greiddan arð sem nemur 1.750 milljónum króna vegna rekstrarársins.
Ársskýrsla OR er jafnframt gefin út í dag. Þar er með skipulegum og gegnsæjum hætti gerð grein fyrir umhverfisþáttum starfseminnar árið 2019, loftslagsáhrifum, samfélagsþáttum, stjórnháttum og fjármálum á árinu. Í samstæðu OR eru, auk móðurfélagsins, Veitur, Orka náttúrunnar, Gagnaveita Reykjavíkur og CarbFix, nýtt þróunarfélag um lausnir í loftslagsmálum.
Smelltu hér til að sjá Ársskýrslu OR 2019
Eftir ördeyðu á byggingamarkaði í kjölfar hrunsins, hefur nú síðustu ár mikið verið byggt af húsnæði á höfuðborgarsvæðinu, stærsta starfssvæði Orkuveitu Reykjavíkur og dótturfyrirtækjanna. Þessu hafa fylgt verulegar fjárfestingar hjá samstæðunni, hvorttveggja við að tengja nýjar byggingar og ný hverfi en líka við endurnýjun stofnæða veitukerfanna til eldri hverfa þar sem byggð er að þéttast. Fjárfestingar ársins 2019 hjá samstæðunni námu 19,4 milljörðum króna og jukust um þrjá milljarða króna eða 18% frá árinu 2018. Traustur fjárhagur fyrirtækjanna gerði þeim kleift að mæta þessum vexti og fjármagna hann með hagkvæmum hætti.
Á árinu 2019 hóf Orkuveita Reykjavíkur útgáfu grænna skuldabréfa til fjármögnunar á hluta þessara miklu fjárfestinga að undangengnu mati óháðs matsfyrirtækis á útgáfunni. Bréfin fengu hæstu
einkunn, dökkgrænan lit, hvorttveggja fyrir sjálfbærni verkefnanna og stjórnsýslu fjármögnunarinnar. Bréf OR voru, fyrst grænna skuldabréfa frá íslensku fyrirtæki, boðin á opnum markaði og í framhaldinu tekin til skráningar á markaði Nasdaq Ísland fyrir sjálfbær skuldabréf.
Útlit er fyrir að það dragi úr fjárfestingum á þessu ári og þeim næstu og til marks um það hefur starfsfólki fyrirtækjanna í samstæðunni fækkað frá áramótum. Því hafði áður fjölgað vegna vaxandi umsvifa frá því á árunum eftir hrun. Áfram verða fjárfestingar þó talsverðar. Auk hefðbundinna viðhaldsfjárfestinga í veitukerfum og virkjunum eru framundan stærri verkefni á borð við uppfærslu allra orkumæla og endurbyggingu hluta skrifstofuhúsnæðis OR við Bæjarháls. Samdráttur í efnahagslífi landsins getur þýtt að þessar fjárfestingar verði hagkvæmari en ella.
Álverð var lágt á árinu 2019 og hafði það áhrif á tekjur af raforkusölu til stórnotenda samkvæmt samningum tengdum álverði. Fyrirtækið hefur þó verulega dregið úr áhrifum álverðs á tekjur með áhættuvörnum.
Í tengslum við gerð samninga á vinnumarkaði á fyrri helmingi ársins 2019 gáfu Veitur út yfirlýsingu um að gjaldskrár fyrirtækisins myndu ekki hækka umfram viðmið lífskjarasamninganna. Tekjur samstæðunnar jukust um 1,4% milli áranna 2018 og 2019.
Ársreikningur Orkuveitu Reykjavíkur og dótturfyrirtækjanna fyrir árið 2019 sýnir að fjárhagur samstæðunnar er traustur og Ársskýrslan okkar, sem einnig kemur út í dag, sýnir að þjónustan er ekki síður traust. Það er gott vegarnesti. Viðskiptavinir Veitna, Orku náttúrunnar og Gagnaveitu Reykjavíkur urðu fyrir litlum truflunum í óveðrum vetrarins. Þetta kemur meðal annars fram í úttekt opinberrar nefndar á innviðum landsins, sem birt var í síðasta mánuði.
Þetta þýðir að við höfum haldið vöku okkar og viðhaldið eignum OR þótt þær séu vitaskuld ekki án veikleika fremur en önnur mannanna verk. Aukin sjálfvirkni, aukin hagkvæmni, enn aukið rekstraröryggi og minnkandi loftslags- og umhverfisáhrif eru á meðal markmiðanna sem við vinnum að.
Viðskiptavinir njóta þess þegar vel gengur í rekstrinum. Verð á margri þjónustu Orkuveitunnar hefur lækkað ítrekað eða staðið í stað síðustu misseri. Við tökum fullan þátt í lífskjarasamningunum á vinnumarkaði með því að halda aftur af verðhækkunum eins og nokkur er kostur.
Uppgjör okkar snýst um fleira en fjármuni. Við leggjum spilin á borðið varðandi ábyrgð okkar í samfélaginu og umhverfinu í Ársskýrslu OR 2019. Tilgangur skýrslunnar er ekki síst að skapa grundvöll fyrir umræðu um það sem má betur fara í rekstri Orkuveitunnar. Á árinu 2019 settum við okkur enn metnaðarfyllri loftslagsmarkmið en áður, að ná kolefnishlutleysi árið 2030. Að því stefnum við ótrauð.
Ársskýrsla OR 2019 er samþætt skýrsla, skráð eftir hinum alþjóðlegu ESG-viðmiðum sem þróuð hafa verið í samvinnu kauphalla og Sameinuðu þjóðanna. Þar er gerð grein fyrir loftslagsáhrifum starfsemi OR og dótturfyrirtækjanna, öðrum umhverfisáhrifum rekstursins, stjórnháttum innan samstæðunnar og margvíslegum samfélagsþáttum. Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur ákvað að leggja aðaláherslu á fjögur af Heimsmarkmiðunum 17. Þau eru:
Í Ársskýrslu OR 2019, sem er einungis gefin út rafrænt, er sérstök grein gerð fyrir frammistöðu fyrirtækisins með tilliti til Heimsmarkmiðanna.
2015 | 2016 | 2017 | 2018 | 2019 | |
---|---|---|---|---|---|
Fjárhæðir eru í milljónum króna | |||||
Rekstrartekjur | 40.357 | 41.423 | 43.666 | 45.916 | 46.570 |
Rekstrarkostnaður | -15.183 | -16.062 | -17.285 | -17.299 | -18.398 |
EBITDA | 25.174 | 25.361 | 26.380 | 28.617 | 28.172 |
Afskriftir | -10.747 | -10.392 | -9.063 | -10.271 | -12.121 |
Rekstrarhagnaður (EBIT) | 14.428 | 14.968 | 17.318 | 18.346 | 16.051 |
Reiknaður tekjuskattur tímabilsins | 587 | -4.702 | -5.328 | 1.380 | -337 |
Afkoma tímabilsins | 4.176 | 13.352 | 16.072 | 5.978 | 6.916 |
Aðrir rekstrarvísar | |||||
Raforkuvinnsla (gígavattstundir) | 3.249 | 3.411 | 3.473 | 3.507 | 3.538 |
Heitavatnsvinnsla (milljónir m3) | 95 | 91 | 94 | 102 | 101 |
Neysluvatnsvinnsla (milljónir m3) | 29 | 30 | 29 | 28 | 29 |
Bein losun CO2-ígilda – Umfang 1 (tonn) |
52.100 | 43.850 | 40.350 | 42.500 | 43.500 |
Hreinsun og binding brennisteinsvetnis frá Hellisheiðarvirkjun (%)* |
26% | 47% | 68% | 75% | 55% |
Kynbundinn launamunur** | 2,30% | 2,10% | 0,30% | 0,00% | 0,06% |
Konur meðal stjórnenda | 47% | 49% | 51% | 54% | 50% |
*Vegna stækkunar varmastöðvar í Hellisheiðarvirkjun þurfti að aftengja hreinsistöð fyrir koltvíoxíð og brennisteinsvetni um hríð og skýrir það samdrátt í hreinsun milli áranna 2018 og 2019. Gert er ráð fyrir ótrufluðum rekstri árið 2020.
**Rauðar tölur tákna óútskýrðan kynbundinn launamun konum í hag, svartar körlum í hag.