30. sep 2021
OrkuveitanFjárfestingar Orkuveitu Reykjavíkur og dótturfyrirtækja munu nema liðlega 106 milljörðum króna á næstu sex árum samkvæmt fjárhagsspá samstæðunnar, sem samþykkt var af stjórn Orkuveitu Reykjavíkur í dag. Fjárhagsspáin, sem er fyrir árabilið 2022 til og með 2027, er samandregin fyrir öll fyrirtækin í samstæðunni. Auk móðurfélagsins eru innan hennar Veitur, Orka náttúrunnar, Gagnaveita Reykjavíkur og Carbfix. Á árabilinu er gert ráð fyrir að vaxtaberandi skuldir lækki um 36 milljarða króna.
Fjárhagsspá samstæðu OR 2022 og langtímaspá 2023-2027
Bjarni Bjarnason forstjóri segir fjárhag fyrirtækjanna í samstæðu OR traustan og engar verulegar sveiflur fyrirséðar í tekjum eða gjöldum á næstu árum. „Eins og jafnan áður fer verulegur hluti teknanna í að viðhalda þeim miklu eignum sem fyrirtækjunum er trúað fyrir og sjá okkur fyrir grænni orku, fersku vatni og heilnæmara umhverfi,“ segir Bjarni.
Hann bætir við að talsverðar fjárfestingar í nýsköpun séu fram undan sem snerti flestar loftslagsvána með einhverjum hætti. „Carbfix er þar sér á báti með sína mikilvægu aðferð til varanlegrar kolefnisbindingar en líka má nefna uppfærslu allra orkumæla Veitna, sem gefa viðskiptavinum tækifæri til að fylgjast betur með sinni notkun og spara. Orka náttúrunnar verður áfram leiðandi í hleðslulausnum fyrir rafbíla, Veitur munu með einhverjum hætti koma að þeirri byltingu sem er fram undan í almenningssamgöngum á höfuðborgarsvæðinu og Ljósleiðarinn sannaði heldur betur gildi sitt í faraldrinum þegar mikill fjöldi fólks hreinlega gat ekki ferðast til vinnu og vann heima hjá sér,“ segir Bjarni Bjarnason forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur.
Fjárhagsspá Orkuveitu Reykjavíkur 2022 og fimm ára spá 2023–2027 fer til umfjöllunar hjá Reykjavíkurborg, sem hluti af fjárhagsáætlun samstæðu Reykjavíkurborgar.