31. maí 2021
OrkuveitanAfkoma reksturs Orkuveitu Reykjavíkur var mjög góð á fyrstu þremur mánuðum ársins 2021. Hvorttveggja minni rekstrarkostnaður og auknar tekjur skýra betri afkomu á fyrsta ársfjórðungi í ár en í fyrra. Að auki hækkaði álverð talsvert á fyrstu mánuðum ársins. Það hefur áhrif á reiknaða fjármagnsliði uppgjörsins sem leiðir til jákvæðrar afkomu á tímabilinu sem nemur 5,9 milljörðum króna.
Árshlutareikningur OR samstæðunnar fyrir fyrsta ársfjórðung 2021 var samþykktur af stjórn OR í dag. Auk móðurfélagsins eru innan samstæðunnar Veitur, Orka náttúrunnar, Gagnaveita Reykjavíkur og Carbfix.
Sé litið til reksturs OR hækkaði launakostnaður milli ára í samræmi við ákvæði kjarasamninga en annar rekstrarkostnaður lækkaði meira en því nam. Lækkun rekstrarkostnaðar milli ára nam 223 milljónum króna, eða 4,7%. Tekjur allra starfsþátta jukust og rekstrarhagnaður (EBIT) nam 5,9 milljörðum króna en var 5,5 milljarðar króna fyrstu þrjá mánuðina 2020.
Áform um auknar fjárfestingar til að sporna við áhrifum kórónuveirufaraldursins gengu ekki öll eftir á árinu 2020 og lausafjárstaða OR og dótturfélaganna hefur aldrei verið eins sterk eins og nú. Ekki er vanþörf á þar sem mörg áformanna eru að ganga eftir um þessar mundir og talsverð útgjöld þeirra vegna framundan.
Álverð lækkaði ört í upphafi kórónuveirufaraldursins fyrir ári. Þar sem hluti raforkusölu OR í langtímasamningum er tengdur álverði kom lækkað mat á verðmæti þeirra niður á reiknaðri afkomu OR á fyrsta ársfjórðungi 2020. Á fyrstu mánuðum þessa árs hefur dæmið snúist við. Sveiflan milli ára nemur heilum 10,3 milljörðum króna. Það skýrir að verulegu leyti umskiptin í afkomu samstæðunnar á fyrstu þremur mánuðum áranna 2020 og 2021.
Það er ánægjulegt að traust tök okkar á rekstrarkostnaði skili sér svona greinilega í bættri afkomu um leið og ytri aðstæður eru hagstæðari. Við skilum líka árangri á fleiri sviðum rekstursins en því fjárhagslega. Veitureksturinn er traustur og okkur gengur vel að halda aftur af gjaldskrárhækkunum, virkjanirnar skila því sem ætlast er til af þeim, Ljósleiðarinn nær til sífellt fleiri heimila og fyrirtækja og á síðustu vikum og mánuðum hefur Carbfix fengið mikinn byr í seglin. Rekstur undir hatti Orkuveitu Reykjavíkur er umfangsmikill og mér sýnist okkar frábæra starfsfólk og stjórnendur standa sig vel í að sinna þeirri mikilvægu þjónustu sem okkur er trúað fyrir.
Lykiltölur fjármála OR-samstæðunnar eru birtar á vef Orkuveitu Reykjavíkur ásamt fjárhagslegum markmiðum sem unnið er eftir.
Slóðin er or.is/fjarmal/lykiltolur-fjarmala