Moody‘s spáir OR bjartari tíð

24. jan 2016

Orkuveitan

Alþjóðlega matsfyrirtækið Moody‘s hefur tekið saman skýrslu um almennar horfur í rekstri íslenskra orku- og veitufyrirtækja. Greinendur fyrirtækisins telja að Orkuveita Reykjavíkur (OR) muni njóta almenns vaxtar í efnahagslífinu hér á landi, ekki síst vegna vaxandi eftirspurnar eftir rafmagni og heitu vatni.

Í frétt Moody‘s um skýrsluna er haft er eftir Ericu Gauto Flesch, greinanda hjá Moody‘s, að fyrirtækið búist við að þróun í íslenska hagkerfinu muni styrkja fjárhag tveggja stærstu orku- og veitufyrirtækja landsins,  Orkuveitu Reykjavíkur og Landsvirkjunar, þó OR fremur þar sem meginhluti starfsemi fyrirtækisins sé veiturekstur, þ.e. þjónusta með sérleyfi á Íslandi. Samkvæmt spá Moody‘s muni eftirspurn eftir rafmagni aukast um 3% á ári fram til 2018 og eftir heitu vatni um 1,5% á ári. Þá er þess getið að styrking íslensku krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum hafi jákvæð á stöðu skulda OR, sem að mestu eru í erlendri mynt.

Skýrslan heitir á frummálinu „Icelandic Utilities: Improving prospects due to positive macroeconomic conditions.“ Hún felur ekki í sér mat á lánshæfi þeirra fyrirtækja sem til umfjöllunar eru. Áskrifendur að vef Moody‘s geta nálgast hana en fréttatilkynning fyrirtækisins um skýrsluna er öllum aðgengileg.