20. nóv 2017
OrkuveitanEigendur Foss fasteignafélags, sem á húseignirnar á Bæjarhálsi 1, hafa samþykkt kauptilboð Orkuveitu Reykjavíkur (OR) í félagið. Með því fær OR aftur forræði yfir húsunum þar sem meginstarfsemi fyrirtækisins er. OR seldi fasteignafélaginu húsin árið 2013 og hefur verið leigjandi þar síðan. Eftir að í ljós kom að um þriðjungur húseignanna, svokallað vesturhús, var stórskemmt af raka hafa OR og eigendur húsanna leitað bestu lausna. Vesturhúsið hefur staðið autt um nokkurra mánaða skeið. OR mun eftir sem áður standa vörð um hagsmuni fyrirtækisins gagnvart þeim sem að húsbyggingunni komu með tilliti til hugsanlegra bóta.
Foss fasteignafélag var stofnað á sínum tíma af nokkrum lífeyrissjóðum og fjárfestingarsjóðum um kaup þeirra á fasteignum OR við Bæjarháls. Með viðskiptunum nú, sem samþykkt voru í stjórn OR í dag með fyrirvara um staðfestingu eigenda, má segja að kaupin gangi til baka.
OR seldi húseignirnar fyrir 5,1 milljarð króna árið 2013. Það var úrslitaár í framvindu Plansins þar sem OR þurfti að greiða tugi milljarða króna af lánum og laust fé var því afar lítið. OR ávaxtaði söluandvirðið í varasjóði og eru áætlaðar vaxtatekjur OR af fénu frá sölu hússins rúmlega 330 milljónum króna umfram leigugreiðslur OR til Foss.
Rakaskemmdirnar í vesturhúsinu sköpuðu OR óviðunandi aðstæður. Fyrirtækið óskaði því eftir viðræðum við Foss fasteignafélag um lausn á vandanum. Niðurstaða viðræðna varð sú að OR fær að nýju fullt forræði yfir fasteignunum við Bæjarháls 1. OR kaupir allt hlutafé fasteignafélagsins á 1,4 milljarða króna og tekur yfir lán sem á félaginu hvíla sem nema 4,1 milljarði. OR hyggst endurfjármagna þau með útgáfu skuldabréfa. Gert var ráð fyrir útgjöldum vegna þessa í fjárhagsáætlun OR sem var samþykkt í stjórn 20. október síðastliðinn og send fjölmiðlum.
Stjórnendur OR birtu upplýsingar um alvarlegt ástand vesturhússins 25. ágúst síðastliðinn og kynntu jafnframt mögulega kosti í stöðunni. Nú stendur yfir nákvæmara mat á ýmsum valkostum. Þá hefur OR lagt fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur ítarlega beiðni um að dómkvaddur matsmaður verði fenginn til að meta ástæður skemmdanna og tjónið af þeim. Niðurstaðan verður grunnur að því að meta lagalega stöðu OR.
Í samskiptum við eigendur Foss kom fljótlega í ljós vilji beggja til að ná samkomulagi. Deilur eða málarekstur gætu kostað báða aðila mikið fé og kallað á áralanga óvissu um sjálft meginefni málsins; heilsuspillandi hús sem er engum til gagns.
Að vel athuguðu máli varð það niðurstaða okkar að reyna að eignast húsin aftur. Verkefnið er snúið. Margir kostir eru til skoðunar og með þessu samkomulagi er valið okkar.