2. mar 2016
OrkuveitanÁrsreikningur samstæðu Orkuveitu Reykjavíkur (OR) staðfestir viðsnúning í rekstri OR og dótturfélaganna á síðustu árum. Með traustri og stöðugri afkomu rekstursins hafa nettó vaxtaberandi skuldir lækkað um 76 milljarða króna frá árslokum 2009. Á sama tímabili hefur eiginfjárhlutfall OR samstæðunnar hækkað úr 14% í 37%.
Ársreikningurinn er gerður í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla. Auk móðurfélagsins eru helstu fyrirtækin í samstæðu OR þessi; Veitur, Orka náttúrunnar og Gagnaveita Reykjavíkur.
Rekstrargjöld fyrirtækjanna innan samstæðu OR hafa verið í jafnvægi síðustu ár og sparnaður í rekstrinum er varanlegur. Þá hafa áhættuvarnir vegna breytinga á álverði dregið úr sveiflum í tekjum. Fjárfestingar fyrirtækjanna tvöfölduðust milli áranna 2014 og 2015 og námu 10,2 milljörðum króna á síðasta ári. Hverahlíðarlögnin að Hellisheiðarvirkjun og viðhaldsboranir á Hengilssvæðinu voru helstu fjárfestingar við virkjanir ON, fráveituframkvæmdir á Vesturlandi og endurnýjun í veitukerfum þar og á höfuðborgarsvæðinu voru umfangsmestu fjárfestingar Veitna. Gagnaveita Reykjavíkur lauk tengingu heimila í þéttbýli Reykjavíkur við Ljósleiðarann.
Á árinu 2015 lækkuðu nettó vaxtaberandi skuldir OR um 14 milljarða króna. Í árslok 2015 námu þær 158 milljörðum króna og eins og súluritið sýnir hafa þær lækkað um 76 milljarða króna frá árslokum 2009.
Aðgerðum vegna Plansins má skipta í ytri og innri þætti. Ytri aðgerðir, lán frá eigendum og leiðrétting gjaldskrár, höfðu þá skilað 21,1 milljarði eða 38%. Aðgerðir innan fyrirtækisins höfðu í árslok 2015 skilað 33,9 milljörðum króna eða um 62% af heildarárangrinum.
Stöðuskýrsla aðgerðaáætlunar 2015
Viðsnúningurinn í fjármálum OR og dótturfyrirtækjanna hefur gengið vonum framar. Sú menningarbreyting sem orðin er í OR skilaði fljótt bættri afkomu. Okkur sýnist að batinn sé varanlegur.
Það kann að koma á óvart að einungis sjötta hver króna af heildarárangri Plansins hafi verið sótt í hækkun gjaldskrár. Fyrir fimm árum, þegar Planinu var hleypt af stokkunum, heyrðist sú skoðun að bjarga ætti OR með því einu að fara í vasa viðskiptavina. Sú var og er ekki raunin heldur hefur á nokkrum árum tekist að reisa við fjárhaginn á nýjum grunni. Þar eiga margir hlut að máli; eigendur fyrirtækisins, stjórn þess, stjórnendur og ekki síst starfsfólk allt. Það á þakkir skildar.
Rekstur samstæðu OR | 2011 | 2012 | 2013 | 2014 | 2015 |
Allar fjárhæðir eru í mkr. á verðlagi hvers árs | |||||
Rekstrartekjur ...................................................... | 33.626 | 37.905 | 39.209 | 38.526 | 40.357 |
Orkukaup og -flutningur............................... | (5.016) | (4.866) | (5.402) | (5.335) | (6.400) |
Laun og annar rekstrarkostnaður......................... | (7.375) | (7.995) | (7.724) | (8.346) | (8.782) |
EBITDA | 21.235 | 25.044 | 26.084 | 24.845 | 25.174 |
Afskriftir ............................................................... | (8.881) | (10.371) | (8.927) | (9.152) | (10.747) |
Rekstrarhagnaður EBIT | 12.354 | 14.673 | 17.157 | 15.693 | 14.428 |
Afkoma tímabilsins | (556) | (2.295) | 3.350 | 8.871 | 4.176 |
Sjóðstreymi: | |||||
Innleystar vaxtatekjur .......................................... | 127 | 147 | 209 | 742 | 677 |
Greidd vaxtagjöld ................................................ | (5.690) | (7.093) | (6.308) | (4.293) | (3.948) |
Handbært fé frá rekstri ........................................ | 16.930 | 18.935 | 20.033 | 22.084 | 21.815 |
Veltufé frá rekstri ................................................. | 17.231 | 19.880 | 19.675 | 18.881 | 22.563 |