Staða OR sterk til að vinna gegn samdrætti

24. ágú 2020

Orkuveitan

Hálfsársuppgjör samstæðu Orkuveitu Reykjavíkur (OR; Reykjavík Energy) ber með sér stöðugleika í afkomu og að fyrirtækið sé því vel í stakk búið að auka við fjárfestingar til að vinna gegn efnahagssamdrætti í landinu. Rekstrarhagnaður (EBIT) nam 8,1 milljarði króna á fyrri hluta ársins en var 8,2 milljarðar í fyrra og framlegð rekstursins (EBITDA) jókst milli ára, úr 13,9 milljörðum 2019 í 14,4 milljarða króna nú. Árshlutareikningur samstæðu OR fyrir fyrstu sex mánuði ársins var samþykktur í stjórn fyrirtækisins í dag. Reikningurinn er uppgjör allrar samstæðunnar en innan hennar eru, auk móðurfélagsins, Veitur, Orka náttúrunnar, Gagnaveita Reykjavíkur og Carbfix.

OR Árshlutareikningur samstæðu F2 2020

Bjarni Bjarnason, forstjóri OR, segir trausta fjárhagsstöðu Orkuveitu Reykjavíkur og festu í rekstrinum sýna að fyrirtækin í samstæðunni séu vel búin til að auka umsvifin til að vinna á móti efnahagssamdrættinum vegna kórónuveirufaraldursins. Lausafjárstaða OR hafi aldrei verið sterkari.

Rekstur OR fyrri helming árs 2016-2020

Dregur úr áhrifum reiknaðra stærða

Samhliða þessum mikla stöðugleika í rekstrarafkomu hefur dregið úr áhrifum reiknaðra stærða á heildarafkomuna eftir því sem liðið hefur á árið. Reikningsskilin eru í samræmi við staðalinn IAS 34 um árshlutareikninga og því fylgir að breytingar á væntum tekjum af langtímasamningum eru teknar með í rekstrarreikninginn. Lækkun á álverði frá ársbyrjun, sem hefur áhrif á tekjur af raforkusölu, er þá reiknuð mörg ár fram í tímann en færð til bókar í hverju uppgjöri. Áhrif þessa á heildarafkomu OR á fyrstu þremur mánuðum þessa árs voru mjög mikil, eða liðlega 10 milljarðar króna. Þetta gekk til baka um 1,9 milljarða á öðrum ársfjórðungi. Þessar færslur hafa ekki áhrif á rekstrarhagnað, sjóðstöðu eða getu fyrirtækisins til fjárfestinga en hafa áhrif á reiknaða heildarniðurstöðu árshlutauppgjörsins. Hún er nú neikvæð um 0,9 milljarða króna en samsvarandi tala var jákvæð um 3,3 milljarða króna eftir fyrri hluta ársins 2019.

Bjarni Bjarnason, forstjóri

Núna þegar kreppir að í samfélaginu vegna veirunnar, sjáum við hvað það skiptir miklu að hafa náð að snúa fjárhag Orkuveitu Reykjavíkur til hins betra á sínum tíma. Frá því samdráttar vegna kórónuveirunnar fór að gæta seint síðasta vetur, hafa fyrirtækin í samstæðunni haft afl til að axla samfélagslega ábyrgð. Það hefur sýnt sig meðal annars í auknum fjárfestingum og fjölgun sumarstarfsfólks.

Rekstraruppgjör Orkuveitu Reykjavíkur eftir fyrri helming þessa sérkennilega árs sýnir að við höfum styrk til að halda áfram að leggja okkar af mörkum.

Eins og stundum áður sjáum við í uppgjöri OR verulega sveiflu vegna reiknaðra stærða sem hafa hvorki áhrif á niðurstöðu af rekstrinum né sjóðstreymið. Hún er neikvæð í þetta skiptið en hún hefur ekki áhrif á getu Orkuveitu Reykjavíkur til að vera á meðal þeirra sem draga vagninn á leið okkar út úr efnahagssamdrættinum í samfélaginu. Innbyggðar varnir í fjárhagsskipan samstæðu OR gera það að verkum að á móti þessari færslu í rekstrarreikningi eflist efnahagsreikningurinn og eigið fé hækkar.

Heimsfaraldurinn hefur vitaskuld haft talsverð áhrif á starfsemi OR og dótturfyrirtækjanna, rétt eins og heimsbyggðina alla. Við vorum ágætlega undir hann búin með viðbragðsáætlanir og sú ábyrgð sem starfsfólk hefur sýnt í samskiptum við viðskiptavini og sín á milli hefur komið í veg fyrir að faraldurinn hafi bitnað á þjónustu OR. Við höfum þurft að breyta mörgu í starfseminni. Margar þeirra breytinga hafa verið til batnaðar og við komum til með halda þeim eftir að við höfum bægt ógninni af kórónuveirunni frá.

Rekstraryfirlit og helstu kennitölur
2016 2017 2018 2019 2020
Fjárhæðir
eru í mkr. á verðlagi hvers árs
1.1.-30.6. 1.1.-30.6. 1.1.-30.6. 1.1.-30.6. 1.1.-30.6.
Rekstrartekjur 20.955 21.612 23.167 23.502 24.272
Rekstrarkostnaður (8.215) (8.063) (8.626) (9.571) (9.879)
þ.a. orkukaup og flutningur (3.133) (2.898) (3.112) (2.870) (2.824)
EBITDA 12.741 13.549 14.541 13.931 14.393
Afskriftir (5.303) (4.706) (4.616) (5.728) (6.284)
Rekstrarhagnaður
EBIT
7.438 8.842 9.926 8.203 8.109
Afkoma
tímabilsins
5.029 7.311 4.200 3.349 (900)
Sjóðstreymi
Innleystar
vaxtatekjur
57 124 99 207 174
Greidd
vaxtagjöld
(1.890) (2.013) (2.267) (2.726) (2.655)
Handbært
fé frá rekstri
11.774 12.652 10.988 13.330 12.520
Veltufé
frá rekstri
10.617 11.707 12.048 10.027 11.164
Lausafé 30.6.2016 30.6.2017 30.6.2018 30.6.2019 30.6.2020
Bundnar
innstæður og markaðsverðbréf
1.441 4.127 6.259 7.112 13.091
Handbært
7.049 14.151 10.917 14.912 15.097
Lausafé
samtals
8.490 18.278 17.176 22.024 28.187
Kennitölur 30.6.2016 30.6.2017 30.6.2018 30.6.2019 30.6.2020
Eiginfjárhlutfall 38,3% 42,6% 47,3% 47,4% 47,2%
Veltufjárhlutfall 0,9 1,1 1,1 1,1 1,0
Nettó
skuldir / handbært fé frá rekstri
6,0 4,7 5,7 5,0 5,6
Vaxtaþekja
(handb. fé frá rekstri - vaxtagjöld)/vaxtagjöld
5,6 5,7 4,6 4,6 4,3
ROCE 5,1% 6,4% 6,6% 4,8% 4,2%