Stöðug afkoma OR

26. ágú 2019

Orkuveitan
Borhola úr lofti

Afkoma reksturs Orkuveitu Reykjavíkur á fyrri helmingi ársins 2019 var svipuð og undanfarin ár. Árshlutareikningur samstæðunnar var staðfestur af stjórn OR í dag. Innan samstæðunnar eru, auk móðurfélagsins, Veitur, Orka náttúrunnar og Gagnaveita Reykjavíkur.

OR Árshlutareikningur samstæðu H1 2019

Fjárfestingar í hámarki

Mikil uppbygging húsnæðis á helsta þjónustusvæði fyrirtækisins og endurnýjun burðaræða hitaveitu og vatnsveitu ráða miklu um að fjárfestingar voru miklar á fyrri helmingi ársins. Gangi spár eftir, mun heldur draga úr þörf fyrir að tengja nýtt húsnæði veitukerfunum og mörg stærstu endurnýjunarverkefnin eru langt komin. Því er útlit fyrir að það dragi úr fjárfestingum á næstu árum.

Fjárfestingar í rekstrarfjármunum innan samstæðu OR námu 7,7 milljörðum króna á fyrri helmingi ársins en voru 6,5 milljarðar á sama tímabili 2018. Viðhalds- og nýfjárfestingar í grænum orkukerfum á borð við virkjanir og hitaveitu eru á meðal umhverfisverkefna sem OR fjármagnar að hluta með útgáfu grænna skuldabréfa. Sú útgáfa hófst á fyrri hluta ársins og í þeim þremur útboðum sem fram hafa farið hefur eftirspurn verið talsvert umfram framboð og góð kjör fengist. Jafnframt er kaupendahópur bréfanna fjölbreyttari en í fyrri skuldabréfaútgáfu OR.

Bjarni Bjarnason, forstjóri:

Það er stöðugleiki í afkomu Orkuveitu Reykjavíkur og dótturfyrirtækjanna þótt við sjáum vissulega áhrif mikilla umsvifa í byggingageiranum. Útlit er fyrir að dragi úr slíkum fjárfestingum á næstu misserum. Framundan er allsherjar uppfærsla á notkunarmælum rafmagns og hita. Samdráttur heildarfjárfestinga verður því ekki eins mikill og ella.

Efnahagur Orkuveitu Reykjavíkur er traustur og þrátt fyrir þessar miklu fjárfestingar hækkar eiginfjárhlutfallið lítillega á fyrri hluta ársins.

Yfirlit stjórnenda

Lykiltölur fjármála

Fleiri lykiltölur fjármála OR-samstæðunnar eru birtar á vef Orkuveitu Reykjavíkur ásamt fjárhagslegum markmiðum sem unnið er eftir.

H1 2015 H1 2016 H1 2017 H1 2018 H1 2019
Fjárhæðir í milljónum króna
Rekstrartekjur 20.479 20.955 21.612 23.167 23.502
Rekstrarkostnaður (7.443) (8.215) (8.063) (8.626) (9.571)
EBITDA 13.036 12.741 13.549 14.541 13.931
Afskriftir (4.799) (5.303) (4.706) (4.616) (5.728)
Rekstrarhagnaður (EBIT) 8.237 7.438 8.842 9.926 8.203
Reiknaður tekjuskattur tímabilsins 133 (1.474) (2.395) (77) 276
Afkoma tímabilsins 2.260 5.029 7.311 4.200 3.349