Starfskjarastefna

[Stefna yfirfarin og breytingar gerðar við 6. lið á stjórnarfundi 28.03.2022]

Starfskjarastefna þessi er sett í samræmi við eigendastefnu Orkuveitunnar frá 2014, en þar segir í grein 6.4.: 

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur skal setja fyrirtækinu starfskjarastefnu sem felur í sér hófsemi varðandi laun- og starfskjör starfsfólks. Laun stjórnenda skulu standast samanburð við sambærileg störf, þó að teknu tilliti til þess að fyrirtækið er í eigu opinberra aðila. Launakjör stjórnenda og annars starfsliðs Orkuveitu Reykjavíkur skulu ekki vera leiðandi á vinnumarkaði.

Stefnan miðar að því að starfskjör innan samstæðu Orkuveitu Reykjavíkur séu samkeppnishæf, að það geti ráðið og haldið í hæft starfsfólk til að standa vörð um hlutverk fyrirtækisins.

Starfskjarastefnan hefur langtímahagsmuni samstæðunnar að leiðarljósi, og skal stuðla að stöðugleika í rekstri og uppbyggingu þekkingar.

1. Starfskjör

Starfskjör í samstæðunni skulu vera samkeppnishæf við kjör í sambærilegum fyrirtækjum og að teknu tilliti til ákvæðis 6.4.3 í eigendastefnu OR. Launakerfi OR skal hafa jafnræði og gagnsæi að leiðarljósi og sambærileg laun skulu greidd fyrir sambærilegt vinnuframlag og árangur. Kynbundinn launamunur má ekki vera til staðar.

2. Stjórn móðurfélags OR

Stjórnarmönnum er greidd föst mánaðarleg þóknun í samræmi við ákvörðun aðalfundar. Starfskjaranefnd leggur fram tillögu til stjórnar um þóknun stjórnarmanna.

3. Forstjóri OR og innri endurskoðandi

Stjórn ræður forstjóra OR og ákveður starfskjör forstjóra. Starfskjaranefnd OR skal endurskoða laun árlega og gera tillögu til stjórnar um breytingar með tilliti til markmiða og mælikvarða fyrirtækisins eftir því sem við á og með hliðsjón af 1. gr. starfskjarastefnunnar.

4. Annað starfsfólk samstæðu OR

Forstjóri ræður þá stjórnendur móðurfélags, sem heyra beint undir hann í skipuriti . Hann ákvarðar laun þeirra og endurskoðar þau reglulega í samræmi við 1. gr. starfskjarastefnunnar. Framkvæmdastjórar ráða annað starfsfólk og ákvarða laun þeirra og endurskoða þau, sömuleiðis í samræmi við 1. gr.

5. Starfslok

Ekki skal gera samninga við stjórnendur, sem fela í sér starfslokagreiðslur umfram skyldur þess samkvæmt lögum og kjarasamningum, nema með samþykki stjórnar.

6. Stjórnir fyrirtækja innan samstæðu OR

  1. Forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur sef. og Orkuveitu Reykjavíkur -eigna ohf. gerir árlega tillögu að stjórnarlaunum dótturfélaga til samþykktar á aðalfundum dótturfélaga á grundvelli starfskjarastefnu.
  2. Áður en til samþykktar kemur þarf forstjóri að upplýsa stjórn móðurfélagsins um tillöguna til að unnt sé að staðfesta samræmi hennar við stefnu móðurfélagsins.
  3. Stjórnarlaun í dótturfélögum OR eiga ekki að vera leiðandi en þó samkeppnishæf að teknu tilliti til þess að fyrirtækið er í eigu opinberra aðila.
  4. Starfsmenn samstæðunnar sem jafnframt eru stjórnarmenn í dótturfélögum njóta ekki stjórnarlauna.

7. Upplýsingagjöf

Starfskjarastefnan skal vera aðgengileg á heimasíðu fyrirtækisins. Gera skal árlega grein fyrir þóknun stjórnar, forstjóra og æðstu stjórnenda í samsvarandi þremur liðum í ársreikningi fyrirtækisins. Einnig skulu koma fram greiðslur vegna stjórnarsetu eða annarra ytri verkefna sem tengjast beint starfi viðkomandi í OR.

8. Eftirfylgni, endurskoðun og samþykkt starfskjarastefnu

Starfskjarastefna OR er samþykkt af stjórn sem leggur hana fyrir aðalfund. Starfskjaranefnd skal endurskoða starfskjarastefnu fyrirtækisins árlega og hefur eftirlit með að henni sé framfylgt.

9. Tilvísun

SKI-100; Ábyrgðir i vottuðum stjórnunarkerfum.