Markmiðin

Loftslagsmarkmið

Orkuveitan birtir loftslagsbókhald sem tekur tillit til um 95% losunar gróðurhúsalofttegunda vegna starfsemi fyrirtækisins. Þar á meðal er bein losun frá jarðvarmavirkjunum, fráveitu og bílaflota en einnig óbein losun í aðfangakeðjunni þar sem kaup á vörum og þjónustu vega þungt.

Yfirlit yfir loftslagsbókhaldið má sjá í Ársskýrslu Orkuveitunnar 2023 og loftslagsbókhaldið sjálft er í pdf-skrá en það var unnið á ensku.

Orkuveitan telur fram beina og óbeina losun gróðurhúsalofttegunda (GHL) vegna starfsemi sinnar. Losun frá jarðvarmavirkjunum (68%) og fráveitu (3%) vegur þyngst vegna beinnar losunar GHL en innkaup (25%) hafa mest vægi vegna óbeinnar losunar í aðfangakeðju fyrirtækisins.

Loftslagsbókhald Orkuveitunnar er unnið samkvæmt aðferðafræði Greenhouse Gas Protocol og er staðfest af Bureau Veritas í samræmi við alþjóðlega staðalinn ISO 14064-1.

Lykiltölur 2023

Nettólosun 2023.png

Loftslagsmarkmið

Orkuveitan stefnir á kolefnishlutleysi eigin starfsemi árið 2030 en einnig vegna aðfangakeðju starfseminnar árið 2040. Losun gróðurhúsalofttegunda mun minnka um 90% í umfangi 1 og 2 og um 40% í umfangi 3 árið 2030, miðað við losun viðmiðunarársins 2016. Loftslagsmarkmiðið er staðfest af Science Based Target initiative (SBTi) og standast þau kröfur loftslagsvísindanna um að halda hitastigshækkun undir 1,5°C.

Enn fremur stefnir Orkuveitan á að draga úr losun í aðfangakeðju fyrirtækisins, umfangi 3, um 90% árið 2040.

Staðfest markmið af SBTi.png

Science based targets.jpg

Staðfesting Science Based Targets (SBTi) á loftslagsmarkmiðum Orkuveitunnar varpar ljósi á skuldbindingu fyrirtækisins til að ná fram metnaðarfullum loftslagsmarkmiðum sem standast kröfur loftslagsvísindanna. Um leið gengur Orkuveitan til liðs við þá alþjóðlegu viðleitni um að halda hlýnun andrúmslofts undir 1,5°C.

ISO14064.png

ISO 14064-1 vottun Orkuveitunnar endurspeglar skuldbindingu fyrirtækisins um að halda nákvæmt loftslagsbókhald og birta þessar upplýsingar opinberlega. Það sýnir metnað og ábyrgð Orkuveitunnar í sjálfbærni- og loftslagsmálum.

EU.png

Hellisheiðarvirkjun fellur að og uppfyllir kröfur flokkunarreglugerðar ESB. Virkjunin losar einungis 9,6 gCO2/kWst, sem er töluvert undir viðmiðum flokkunarreglugerðarinnar fyrir jarðhita en þau eru 100 gCO2/kWst. Árið 2022 var heimsmeðaltalið fyrir orkuframleiðslu tæplega 500 gCO2/kWst.

CDP.png

Carbon Disclosure Project (CDP) leggur mat á sjálfbærni Orkuveitunnar og gagnsæi í upplýsingagjöf fyrirtækisins. Með þátttöku Orkuveitunnar í matinu er sýnt fram á skuldbindingu fyrirtækisins í þessa veru. Ennfremur fá hagsmunaaðilar Orkuveitunnar innsýn í aðgerðir fyrirtækisins til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og til að stjórna loftslagsáhættu sem það stendur frammi fyrir.

Umhverfismarkmið
  • Leggja ríka áherslu á vatnsvernd, sýna ábyrga vinnslu úr vatnsauðlindum og vinna heilnæmt neysluvatn til langrar framtíðar
  • Sýna ábyrga umgengni og vinnslu úr lághitaauðlindum
  • Sýna ábyrga umgengni og vinnslu úr háhitaauðlindum, draga úr losun brennisteinsvetnis og losa jarðhitavatn á ábyrgan hátt
  • Sýna ábyrga umgengni og rekstur fráveitu
  • Meðhöndla úrgang á ábyrgan hátt
  • Beita áfram árangursríkum aðferðum við frágang vegna rasks
  • Vera í fararbroddi í vistvænum samgöngum

Starfsemi Orkuveitunnar er vottuð samkvæmt alþjóðlega ISO 14001 umhverfisstjórnunarstaðlinum.

Heimsmarkmið

Í samræmi við leiðbeiningar Sameinuðu þjóðanna og íslenskra stjórnvalda hefur Orkuveitan forgangsraðað Heimsmarkmiðunum og leggur sérstaka áherslu á sex þeirra í starfsemi samstæðunnar.

Markmiðunum var raðað þannig að haldnar voru vinnustofur með ytri og innri hagsmunaaðilum þar sem þátttakendur röðuðu Heimsmarkmiðunum hvorttveggja eftir því hvar Orkuveitan gæti haft jákvæð áhrif á framgang markmiðanna og hvar hætta kynni að vera á að starfsemin hindraði framganginn. Stjórn Orkuveitunnar tók mið af niðurstöðu vinnustofanna og við samþykkt Sjálfbærnistefnu Orkuveitunnar var ákveðið að áherslumarkmið samstæðu Orkuveitunnar yrðu sex.

Reglubundin rýni stjórnar Orkuveitunnar á öllum sameiginlegum stefnuskjölum samstæðunnar tekur mið af þessu.