Jafnrétti

Orkuveitan leggur metnað sinn í að gæta jafnréttis milli starfsfólks fyrirtækisins með því að vinna markvisst að því að:

  • starfskjör kynja séu jöfn.
  • gera starfsfólki kleift að samræma sem best einkalíf og starfsábyrgð.
  • auka fjölbreytni innan fyrirtækja/hópa/sviða/ deilda til að mynda varðandi kynferði, aldur, kynhneigð, trúarbrögð, skoðanir, þjóðerni, kynþátta, litarhátta, efnahag og stöðu að öðru leyti.
  • jafna hlutfall kynja innan Orkuveitunnar og einstakra fyrirtækja/hópa/sviða/deilda.
  • efla jafnréttismenningu starfsfólks Orkuveitunnar.
  • efla fræðslu og vitund starfsfólks um málefni og áskoranir minnihlutahópa.
  • vinna gegn einelti, kynbundnu ofbeldi, kynbundnu áreitni og kynferðislegri áreitni innan fyrirtækisins.
  • tekið sé mið af jafnréttissjónarmiðum við stefnumótun og stærri ákvarðanatöku.
  • tryggja gott aðgengi og vinnuaðstöðu með tilliti til líkamlegs og andlegs atgervis.

Jafnréttisstefna okkar er skuldbinding um stöðugar umbætur í jafnréttismálum. Hjá Orkuveitunni vitum við að jafnrétti gerist ekki af sjálfu sér.

Framkvæmdaáætlun Orkuveitunnar í jafnréttismálum fyrir árin 2023-2026 sýnir markmið og aðgerðir jafnréttisnefndar fyrirtækisins.

Við höfum náð góðum árangri í að útrýma óútskýrðum kynbundnum launamun. Hjá Orkuveitunni eru gerðar mánaðarlegar jafnlaunagreiningar og höfum við sett okkur það markmið að ekki sé mældur hærri óútskýrður launamunur kynja en 1%. Orkuveitan hefur bæði hlotið Jafnlaunavottun og Gullmerki PwC.

Kynjahlutfall í karllægum geira

Til að fjölbreytt sjónarmið fái að heyrast er mikilvægt að kynjaskipting í ákvörðunar- og áhrifastöðum sé jöfn. Hjá Orkuveitunni hefur náðst góður árangur í að jafna hlut kynjanna í stjórnunarstöðum.

Hjá okkur er lögð áhersla á að stjórnendur, starfsfólk og utanaðkomandi fræðsluaðilar fái fræðslu um jafnréttismál og áhrif staðalímynda og hugsanaskekkja á ákvörðunartöku.

Orkugeirinn er karllægur og höfum við lagt áherslu á að auka hlut kvenna með verk- og tæknimenntun innan Orkuveitunnar.

Lóð á vogarskálarnar

Hjá Orkuveitunni höfum við áhyggjur af hlutfalli kvenna í þeim iðngreinum sem við reiðum okkur á. Iðn- og verkgreinar eru enn í dag karllægustu starfsgreinar atvinnulífsins. Ef rúmlega helmingur þjóðarinnar – konur – útilokar verk-, tækni- og iðngreinar vegna úreltra staðalímynda þá er það kannski ekki að undra.

Okkar stærstu lóð á vogarskálarnar eru tvö. Annars vegar bjóðum við körlum og konum jafnt hlutfall iðnnemasamninga. Hjá Orkuveitunni geta fjórar konur og fjórir karlar sótt um samning til að ljúka sveinsprófi á 18 mánaða fresti.

Hins vegar leggjum við mikla áherslu á að vekja áhuga nemenda á iðn- og tæknistörfum. Iðnir og tækni er samstarfsverkefni Orkuveitunnar og Árbæjarskóla. Nemendur í 10. bekk sækja valáfanga sem hefur það markmið að vekja áhuga nemenda á iðn- og tæknistörfum og kynna þeim þau fjölbreyttu störf og starfstækifæri sem iðn- og tækninám hefur upp á að bjóða. Með því að veita nemendum, stelpum og strákum, tækifæri til að fá raunverulega reynslu af iðn- og tæknistörfum vonumst við til að fleiri líti á nám og starf í þessum greinum sem eftirsóknarverðan valkost.