Rafbílarannsókn Orkuveitunnar, ON og Veitna
Í rannsóknarverkefninu Hlöðum betur voru skoðaðar ýmsar gerðir álagsstýringa til þess að hafa áhrif á hleðsluvenjur rafbílaeigenda. Markmiðið með álagsstýringu er að dreifa auknu álagi á rafdreifikerfið sem myndast vegna rafbílahleðslu og þannig auka nýtni rafdreifikerfisins. Verkefnið sýndi að hægt er að ná töluverðum árangri með álagsstýringum og geta slíkar lausnir því hjálpað gríðarlega í orkuskiptunum. Rannsóknartímabilið byrjaði í nóvember 2022 og lauk í febrúar 2024.
Í verkefninu voru skoðaðar þrjár gerðir álagsstýringa, sem allar sýndu fram á möguleika í að lækka álagstoppa í rafdreifikerfinu. Tímaháð verðskrá, þar sem lægra verð er utan álagstíma, lækkaði toppa töluvert. Önnur gerð álagsstýringar, þar sem orkunotkun hvers klukkutíma fór á þrepaskipta verðskrá, sýndi einnig fram á toppalækkun. Síðasta álagsstýringin, bein hleðslustýring, var gerð með því að fjarstýra hleðslustöðvum þátttakendanna í rannsókninni. Tvær mismunandi stýringaraðferðir voru skoðaðar, þar sem einfaldari aðferðin lækkaði toppa á sumum tímum en hækkaði þá í öðrum tilvikum. Seinni aðferðin, sem notaðist við hleðslutölfræði þátttakendanna, dreifði álaginu betur og lækkaði álagstoppa.
Þátttakendum verkefnisins fannst tímaháða verðskráin vera ákjósanlegust, þar á eftir kom aflþátturinn og loks beina stýringin. Meirihluta þátttakenda fannst fyrirhöfnin við þátttöku í álagsstýringum þess virði.