Í gegnum fjögur dótturfyrirtæki Orkuveitunnar eru auðlindir nýttar á sjálfbæran og hagkvæman hátt til að þjóna heimilum, fyrirtækjum og stofnunum í samræmi við lögbundnar skyldur á sanngjörnu og samkeppnishæfu verði.
Veitur ohf. urðu til við uppskiptingu Orkuveitunnar í ársbyrjun 2014. Veitur er stærsta veitufyrirtæki landsins. Þrír fjórðu hlutar landsmanna njóta hitaveitna fyrirtækisins, um helmingur landsmanna er tengdur rafveitu þess og um fjórir af hverjum tíu landsmönnum njóta vatnsveitna og fráveitna Veitna ohf.
Orka náttúrunnar ohf. tók til starfa í ársbyrjun 2014. Fyrirtækið framleiðir og selur rafmagn til landsmanna frá Nesjavallavirkjun, Hellisheiðarvirkjun og Andakílsárvirkjun. Frá Nesjavalla- og Hellisheiðarvirkjunum kemur líka um helmingurinn af heita vatninu í hitaveituna á höfuðborgarsvæðinu.
Árið 2007 var Ljósleiðarinn ehf., þá undir nafninu Gagnaveita Reykjavíkur, aðskilinn sérleyfisrekstri Orkuveitunnar. Ljósleiðarinn selur heimilum og fyrirtækjum aðgang að háhraða gagnaflutningskerfi sínu, sem eykur lífsgæði og samkeppnishæfni íslensks samfélags. Ljósleiðarakerfið er opið net sem öllum þjónustuaðilum er heimilt að selja þjónustu sína um og er hraðasta tenging sem völ er á. Viðskiptavinir eru bæði fyrirtæki og einstaklingar sem starfa og búa á þjónustusvæði sem nær nú frá Bifröst til Vestmannaeyja.
Undir lok árs 2019 bættist Carbfix í hóp dótturfélaga Orkuveitunnar. Þá var ákveðið að færa yfir í sérstakt félag frekari þróun og útbreiðslu samnefndrar aðferðar til kolefnisbindingar. Markmið þess að stofna sérstakt fyrirtæki um verkefnið er meðal annars að ná auknum árangri í loftslagsmálum.
Auk þjónustufyrirtækjanna fjögurra eru innan samstæðu Orkuveitunnar þrjú fyrirtæki sem ekki eru með sjálfstæða starfsemi en þjóna bókhaldslegu hlutverki. Það eru Orkuveita Reykjavíkur - vatns- og fráveita sf., Orkuveita Reykjavíkur - eignir ohf. og ON Power ohf.