Svona erum við

Orkuveitan er lifandi vinnustaður og félagslífið er öflugt. Orkuveitan og starfsmannafélagið STOR standa fyrir fjölda viðburða ár hvert; páskabingói, söngkeppninni Orkuvision, árshátíð, haustferð í Þórsmörk, fjölskyldudegi í Elliðaárdal og fjölda jólaviðburða. Að auki eru hefur starfsfólk stofnað fjölda klúbba um áhugamál sín; svo sem golf, hestamennsku, vélhjól og handavinnu. Fyrir utan þessa sameiginlegu viðburði er oft líf og fjör hjá einstaka deildum og sviðum, til að hrista fólk saman og gera vinnuumhverfið skemmtilegt.

Starfsfólk hefur þess kost að stunda líkamsrækt í góðri aðstöðu í Bræðslunni og þar eru líka fastir tímar, m.a. í crossfit, dans fitness og jóga.

Á vinnustaðnum er mikið lagt upp úr því að starfsfólk eigi gæðastundir í vinnu og einkalífi og nái að samræma vinnu og fjölskyldu- og einkalíf. Vinnutími er sveigjanlegur sé þess kostur og við bjóðum börn velkomin á vinnustaðinn.

„Girnilegur og góður matur

Benedikt Jónsson

"Ég starfa í vel búnu eldhúsi Orkuveitunnar og held þar utan um allt sem snýr að mat og veitingum fyrir allar starfsstöðvar okkar. Við leggjum áherslu á fyrsta flokks hráefni, fjölbreytni og hollustu, maturinn þarf bæði að vera girnilegur og góður. Þessar áherslur hafa skilað góðum árangri og sjáum við þess merki í reglulegum heilsufarskönnunum starfsfólks. Við höfum gert átak þegar kemur að matarsóun og vorum fyrsta fyrirtækið til að taka upp Matarsporið, en það sýnir kolefnisspor máltíða, svo starfsfólk geti tekið upplýstari ákvarðanir um eigin neyslu. Hér er enginn dagur eins og ég tekst á við skemmtileg verkefni með góðum vinnufélögum á hverjum degi."

Benedikt Jónsson, yfirmatreiðslumaður

„Mikið lagt upp úr sveigjanleika í starfi

Íris Eva Einarsdóttir 200 px.jpg

"Ég er jarðfræðingur og 2. stigs vélstjóri og held utan um sýnatökur í háhita, lághita og köldu vatni hjá Þróun Orkuveitunnar. Sýnatökur eru mikilvægar, sýnin gefa okkur mynd af stöðu auðlindanna og hjálpa okkur að nýta þær með ábyrgum og sjálfbærum hætti. Við viljum skila þeim til komandi kynslóða í góðu ástandi. Það eru forréttindi að fá að starfa með öllu þessu góða fólki, vinnufélagarnir eru hjálpsamir og við vinnum saman að því að finna bestu leiðir til að leysa verkefnin, hvort sem þau snúa að umgengni við auðlindirnar eða mannauðnum. Orkuveitan er fjölskylduvænt fyrirtæki og mikið lagt upp úr sveigjanleika í starfi og að gott jafnvægi sé á milli vinnu og einkalífs."

Íris Eva Einarsdóttir, verkstjóri sýnatöku Þróunar

„Góður starfsandi og fjölbreytt félagslíf

Þorvaldur Smári Valgarðsson

"Segja má að fjölbreytni sé það orð sem fyrst kemur upp í hugann þegar ég lýsi starfinu mínu. Verkefnin eru fjölbreytt og hjá okkur er líka lögð áhersla á að vera með fjölbreyttan hóp starfsfólks, bæði þegar kemur að kyni og aldri. Það er í samræmi við jafnréttisstefnu fyrirtækisins og skilar sér í starfsfólki með mismunandi bakgrunn og mjög breiðan þekkingargrunn. Sem aftur gerir okkur kleift að veita viðskiptavinum sem besta þjónustu. Starfsemi Orkuveitunnar er afar víðfeðm; rekstur virkjana, framleiðsla og dreifing á rafmagni, heitu og köldu vatni og rekstur fráveitu og ljósleiðara. Við erum að þjóna yfir 70% landsmanna með einum eða öðrum hætti og erindin sem berast eru því af ýmsu tagi. Og það er gaman hjá okkur; góður starfsandi og öflugt félagslíf."

Þorvaldur Smári Valgarðsson, þjónustufulltrúi í þjónustuveri