Árétting vegna fréttar

8. mar 2022

Orkuveitan
Höfuðstöðvar OR að Bæjarhálsi 1 í Reykjavík.
© Atli Már Hafsteinsson

Vegna fréttar í dag um laun forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur áréttar Brynhildur Davíðsdóttir, formaður stjórnar OR, eftirfarandi:

Í samþykkt stjórnar OR fyrir ári síðan, og fjölmiðlar fjölluðu þá um, fékk forstjóri OR eingreiðslu á árinu 2021 sem nam þremur milljónum króna. Þá höfðu laun hans engum breytingum tekið í tvö ár. Ef frá er dregin sú eingreiðsla hafa hækkanir á launum forstjóra síðustu tvö ár ekki verið umfram vísitöluhækkanir. Þess má geta að forstjóri OR lækkaði í launum árið 2019 um tæpa hálfa milljón króna á mánuði en heildarlaun hans í dag eru 2.872.669 krónur á mánuði auk bifreiðahlunninda.

Samið er um laun forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur að undangengnu ítarlegu mati á frammistöðu í starfi og þá lét stjórn OR endurskoðunarfyrirtækið PWC intellecta vinna fyrir sig könnun í aðdraganda launahækkunar síðasta árs. Náði könnunin til launa forstjóra og aðalframkvæmdastjóra í stóriðju- og veitustarfsemi annars vegar og hjá fyrirtækjum með yfir 40 milljarða króna árlega veltu hins vegar. Kom þar fram að heildarlaun þessa hóps voru að meðaltali 4.159.000 krónur á mánuði á árinu 2020.

Stjórn OR starfar eftir eigendastefnu OR og um þessi efni segir: „Laun stjórnenda skulu standast samanburð við sambærileg störf, þó að teknu tilliti til þess að fyrirtækið er í eigu opinberra aðila. Launakjör stjórnenda og annars starfsliðs Orkuveitu Reykjavíkur skulu ekki vera leiðandi á vinnumarkaði.“

Launakjör forstjóra OR taka einmitt mið af þessu.