Orkuskiptum í húshitun lýkur ekki meðan fólki fjölgar

28. nóv 2022

Orkuveitan

„Það kemur sumum á óvart, sérstaklega þeim sem halda að orkuskipti snúist bara um rafmagn, að aflið í hitaveitum Veitna er næstum tvöfalt meira en í Kárahnjúkavirkjun. Mælt í megavöttum er afl Fljótsdalsstöðvar 690 MW en samanlagt afl þeirra hitaveitna sem Veitur starfrækja á sunnan- og vestanverðu landinu er nú um 1.200 MW. Og aflþörfin mun vaxa hratt."

Svona hefst grein sem Bjarni Bjarnason forstjóri OR skrifar á vef Vísis í dag en tilefnið er áberandi umræða sem verið hefur um orkumál í landinu.

Hann segir jafnframt að orkuskiptum í húshitun muni ekki ljúka meðan fólki fjölgar og nú standi yfir sérstakt átak ríkisvalds og sveitarfélaganna til að hraða uppbyggingu á nýju íbúðarhúsnæði víða um land. „Auðvitað vilja íbúar allra þessara nýju húsa hafa hitaveitu enda er hún mun ódýrari en rafkynding. Hitaveitan eykur lífsgæði allra sem hennar njóta, sérstaklega á Ísalandi þar sem allra veðra er von og veðurfar er hryssingslegt og kalt."

Bjarni var einnig gestur í Silfrinu á Rúv í gærmorgun þar sem hann sagði notkun á heitu vatna bara eiga eftir að aukast. Þannig myndi spá Veitna fram til ársins 2060 gera ráð fyrir tvöföldun notkunar á heitu vatni. Þá ræddi Bjarni einnig um vindorku og fór yfir landslagið þegar kemur að hugmyndum um vindmyllur hér á landi. Lagði Bjarni áherslu á að fara varlega í þau áform því hjarðhegðun væri aldrei af hinu góða. Það versta sem gæti gerst væri að reisa 1000 vindmyllur á sama tíma.

Viðtalið við Bjarna úr Silfrinu má sjá hér.

Hér að neðan má nálgast greinar Bjarna á vef Vísis:

Hitaveitan þarf 1.200 megavött í viðbót

Að virkja sig frá loftslagsvánni

Þúsund vindmyllur