OR hlýtur alþjóðleg verðlaun fyrir árangur í að jafna laun kynjanna

2. okt 2023

Orkuveitan
Ellen Ýr Aðalsteinsdóttir framkvæmdastýra mannauðs og menningar hjá OR

Orkuveita Reykjavíkur var nýverið verðlaunuð af samtökunum Rise & Lead Women fyrir árangur sinn í að jafna launamun kynjanna. Ellen Ýr Aðalsteinsdóttir framkvæmdastýra Mannauðs og menningar hjá OR tók við verðlaununum við hátíðlega athöfn í Haag fyrr í mánuðinum.

„Þetta er mikil viðurkenning fyrir okkur hér í samstæðunni en við höfum unnið markvisst að því að jafna launamun kynjanna. Sú vegferð hófst árið 2008 þegar sá munur mældist 8,4% hjá okkur en er í dag 0,2%,“ segir Ellen Ýr.

Yfirskrift verðlaunanna eru „Closing the Gender Pay Gap“ og bar verkefni Orkuveitunnar yfirskriftina „We Mind the Gap“. Tvö önnur fyrirtæki voru tilnefnd í þessum flokki og voru það Allianz SE og Sozial Holding.

Í umsögn dómnefndar segir að Orkuveitunni hafi tekist að jafna laun kynjanna með eftirtektarverðum hætti á aðeins örfáum árum. „Jafnlaunagreining fer fram hjá OR á tveggja mánaða fresti og hafa þau sett sér það markmið að óútskýrður launamunur kynjanna fari ekki yfir 1%.“

Francesca Donner, formaður dómnefndar sagði við þetta tilefni að það sem hafi heillað við OR hafi verið að fyrirtækið hefði sýnt mjög skýrt fram á árangur sinn með mælanlegum hætti. „Þá fagnar dómnefnd vegferð þeirra í þora að breyta víðtækum venjum með framsýnum verkefnum líkt og þessu og vera þannig fyrirmynd fyrir önnur fyrirtæki í Evrópu.“

Ebere Akadiri, stofnandi og forseti Rise & Lead Women lofsamaði einnig árangur fyrirtækisins þegar hún sagði: „Við getum ekki beðið eftir því að deila þessari sögu með umheiminum sem vonandi getur verið innblástur fyrir önnur fyrirtæki í að ná markmiðum sínum.“

Nánari upplýsingar um samtökin og verðlaunin má finna hér.

Jafnlaunalínurit - transparent.png
Orkuveitu Reykjavíkur tókst að loka kynbundnum launamun kynjanna árið 2017 og hefur hann haldist í kringum 0% síðan þá.