Orkuveita Reykjavíkur verði kolefnishlutlaus árið 2030

29. nóv 2019

Orkuveitan

Orkuveita Reykjavíkur hefur einsett sér að verða kolefnishlutlaus árið 2030. Þetta er metnaðarfyllra markmið en fyrirtækið hafði áður sett sér. Aukin förgun og hagnýting koltvíoxíðs frá jarðgufuvirkjunum Orku náttúrunnar mun vega þyngst í markmiðið náist.

OR gerðist aðili að loftslagsyfirlýsingu Reykjavíkurborgar og Festu árið 2015. Árið 2017 var markið sett á að minnka kolefnisspor rekstursins um 60% fyrir árið 2030 og ná kolefnishlutleysi áratug síðar. Þróun mála síðan, hvorttveggja hvað varðar aukna loftslagsvá og afbragðsgóð reynsla af kolefnisförgun, urðu til þess að stjórn OR ákvað að auka metnaðinn í loftlagsmarkmiðum samstæðunnar. Innan hennar eru, auk móðurfélagsins, Orka náttúrunnar, Veitur og Gagnaveita Reykjavíkur.

Helsta uppspretta kolefnislosunar í samstæðunni er sú umfangsmikla jarðhitanýting sem rekin er á Hengilssvæðinu til vinnslu á heitu vatni og rafmagni. Í samræmi við metnaðarfyllri loftlagsmarkmið OR samstæðunnar kynnti Orka náttúrunnar, sem rekur Hellisheiðarvirkjun og Nesjavallavirkjun, ákvörðun um að margfalda kolefnisförgun með CarbFix-aðferðinni. Í henni felst að koltvíoxíð er skilið úr jarðhitagufunni, það blandað vatni og því dælt niður í berggrunninn þar sem gróðurhúsaloftið steinrennur. Afköst verða tvöfölduð við Hellisheiðarvirkjun og undirbúningur er hafinn að innleiðingu tækninnar við Nesjavallavirkjun.

Fyrirtækin innan samstæðunnar vinna nú að því að útfæra ný og háleitari markmið í loftslagsmálum. Auk förgunarinnar er unnið að minnkun kolefnisspors fyrirtækjanna með því að;

  • fjölga visthæfum farartækjum í flota fyrirtækjanna,
  • beita samgöngustyrkjum til að efla vistvænar samgöngur starfsfólks í og úr vinnu,
  • draga úr matarsóun og velja mat með minna kolefnisspor,
  • draga úr úrgangi hvorttveggja frá skrifstofum og framkvæmdum,
  • hagnýta koltvíoxíð frá jarðhitavinnslu,
  • knýja boranir eftir heitu vatni, köldu eða gufu með rafmagni í stað olíu og
  • auka kolefnisbindingu með landbótum og endurheimt votlendis.