Auglýst eftir stjórnarfólki hjá ON og Carbfix

26. feb 2020

Orkuveitan

Auglýst hefur verið eftir fólki í stjórnir tveggja dótturfélaga OR, Orku náttúrunnar og Carbfix. Er þetta í fyrsta skipti sem OR samstæðan auglýsir eftir fólki í stjórnarsæti en sífellt algengara er að sjá fyrirtæki og stofnanir fara þessa leið.

Í stjórn Carbfix, sem er nýtt félag innan Orkuveitusamstæðunnar, er leitað eftir drífandi konu. Umsækjendur skulu vera með góða þekkingu og haldbæra reynslu sem nýtast mun félaginu í vegferð sinni að stóraukinni kolefnisförgun og hafa ástríðu fyrir lausn loftslagsvandans. Stjórn Carbfix er skipuð fimm einstaklingum og hafa þrír karlar og ein kona þegar verið skipuð í hana.

Í stjórn Orku náttúrunnar er óskað sérstaklega eftir karlmanni en í stjórnina hafa þrjár konur og einn karl þegar verið skipuð. Krafist er góðrar þekkingar og haldbærrar reynslu af stjórnun fyrirtækja og viðskiptum í samkeppnisumhverfi og að þeir sem gefa kost á sér brenni fyrir ábyrgri nýtingu náttúruauðlinda til hagsbóta fyrir samfélagið.

Innan samstæðu OR eru starfandi sjö félög sem lúta sérstakri stjórn. Þegar valið er fólk til stjórnarsetu er leitast við að hafa gott samval þekkingar ásamt jöfnum kynjahlutföllum. Stjórnarsæti innan samstæðunnar eru alls 37 en sama fólk skipar stjórn OR og OR Eigna og einnig ON og ON Power. Af sætunum 37 eru 18 skipuð konum og 19 körlum.

Þau sem hafa áhuga á stjórnarsæti hjá Carbfix geta gefið kost á sér á vefnum starf.carbfix.com og hjá Orku náttúrunnar á starf.on.is.

Frestur til að gefa kost á sér er til og með 11. mars 2020.