Elliðaárstöð og Hugmyndasmiðir gera með sér samstarfssamning

19. jan 2024

Orkuveitan
Svava Björk Ólafsdóttir, hugmyndasmiður og sérfræðingur í nýsköpun og Birna Bragadóttir, forstöðukona Elliðaárstöðvar
© Aldís Pálsdóttir

Elliðaárstöð og Hugmyndasmiðir hafa tekið höndum saman þar sem þróuð verður nýsköpunarfræðsla til nemenda sem heimsækja Elliðaárstöð með það að markmiði að stórefla færni þeirra í skapandi hugsun og meðvitund um áskoranir framtíðarinnar á sviði umhverfis- og loftlagsmála. Framtíðin kallar á skapandi einstaklinga til að leysa flókin vandamál. Krakkar eru hugmyndasmiðir og framtíðin er þeirra.

Samstarfið felur það í sér að þróa nýsköpunarsmiðjur fyrir þá fjölmörgu skólahópa sem heimsækja Elliðaárstöð. Einnig verða Meistarabúðir Hugmyndasmiða og Elliðaárstöðvar haldið fyrir krakka næsta sumar þar sem nemendur glíma við raunverulegar áskoranir tengt orku- og umhverfismálum.

Svava Björk Ólafsdóttir, hugmyndasmiður og sérfræðingur í nýsköpun:

„Við hjá Hugmyndasmiðum höfum gefið út okkar fyrstu verk sem eru bókin og sjónvarpsþættirnir Frábær hugmynd! Verkefninu er ætlað að fræða krakka um nýsköpun og efla þau í að móta lausnir við áskorunum nútíðar og framtíðar, þá helst á sviði umhverfis- og loftslagsmála. Við trúum því að framtíðin kalli á öfluga frumkvöðla og að við þurfum öll að svara kallinu - sem er einmitt markmið verkefnisins. Við erum ótrúlega spennt að hefja samstarf við Elliðaárstöð með því markmiði að Elliðaárstöð verði sannkölluð hugmyndastöð - griðastaður grósku og nýsköpunar fyrir skapandi krakka."

Birna Bragadóttir, forstöðukona Elliðaárstöðvar:

„Á síðasta ári tók Elliðaárstöð á móti yfir 4000 nemendum á öllum skólastigun í fræðslu um orku- vísindi og umhverfismál. Samstarfið við Hugmyndasmiði fellur vel inn í metnaðarfulla dagskrá skólafræðslu þar sem viðfangsefnin eru skoðuð á þverfaglegan hátt ásamt því að kynnt eru framfaraskrefin sem stigin hafa verið og möguleikar framtíðarinnar. Við erum því afar spennt fyrir samstarfinu og því tækifæri sem gefst að skapa grasrót ungra frumkvöðla.“