Lítið mál að vera á rafmagnsbíl í fannferginu á Akureyri

8. feb 2021

Orkuveitan

Berglind Ósk Guðmundsdóttir lögfræðingur hjá Háskólanum á Akureyri varð hlutskörpust í Kahoot spurningakeppni OR á dögunum. Keppnin var haldin í tengslum við rafbílafund sem við streymdum undir merkjum Hljóðlátu Byltingarinnar.

„Ég er svolítil bíladellukelling og líka áhugamanneskja um græna orku og orkuskiptin – svo þessi spurningaleikur hefði ekki getað hentað mér betur,“ segir Berglind og hlær en hátt í hundrað manns tóku þátt í keppninni sem var streymt í beinni útsendingu á Facebooksíðu OR.

Berglind sem er í sambúð og á eina fimm ára stelpu hlaut að launum mánaðarafnot af Tesla Model 3 frá Hertz og ON-lykil. Hún hefur ekki verið á rafmagnsbíl áður en alltaf langað í einn slíkan.

„Mig hefur alltaf langað í Teslu, svo þetta er algjör draumur að rætast,“

Berglind sem búsett er á Akureyri var í höfuðborginni í síðasta mánuði og kom þá og náði í Tesluna rétt áður en hún brunaði norður – og hún segir ferðalagið hafa gengið vel.

„Teslan var dásamleg og augljóslega fær um allt. Hleðslan fór samt hratt því að á leiðinni var mest -20 gráður svo ég stoppaði í Víðgerði og nýtti hraðhleðslustöð ON. Á meðan horfði ég á góðan þátt á Netflix í Teslunni og lét fara vel um mig. Ferðin gekk betur en ég þorði að vona og það verður erfitt að skila kagganum.“

Berglind hefur verið á bílnum í tæpar tvær vikur og kann vel við sig á honum á Akureyri þar sem allt er til alls fyrir rafbílaeigendur. „Hleðslustöðin við Hof er algjör snilld. Mjög einföld til notkunar og frábærlega staðsett. Ég setti Tesluna í hleðslu um daginn og stökk á meðan og fékk mér kaffi á kaffihúsi í miðbænum með vinkonu, þegar því var lokið var Teslan fullhlaðin.“

Og Berglind segir það ekki spuringuna um hvort heldur hvenær hún skipti yfir í rafmagnsbílinn. Reynslutíminn á Teslunni muni ekki gera neitt annað en flýta fyrir þeirri ákvarðanatöku.

„Það er alveg ljóst að það er líka ekkert mál að vera á rafmagnsbíl í fannferginu á Akureyri svo það mun ekki standa mér í vegi.“

Við óskum Berglindi innilega til hamingju með sigurinn í keppninni og vonum að hún njóti sín áfram á Teslunni fyrir norðan.