Nýja normið – nýr vinnumarkaður

7. apr 2021

Orkuveitan

Kórónuveirufaraldurinn er að breyta heiminum. Margt hefur verið erfitt en sumar breytingar hafa verið jákvæðar. Í einu vetfangi þurftu fyrirtæki og starfsfólk að laga sig að gjörbreyttum veruleika og finna leiðir til að gegna hlutverkum sínum án þess að stofna lífi og heilsu fólks í hættu. Það varð stafræn umbylting, sem alla jafna hefði tekið tvö ár, á innan við tveimur mánuðum. Margar rannsóknir á áhrifum Covid á framtíðarvinnustaðinn sýna að hin áratugalanga hefð fyrir 9-5 skrifstofuvinnu er hugsanlega úr sögunni. Nýtt norm hefur orðið til sem áður þótti fáheyrt.

Margir kostir heimavinnu

Rannsóknir hafa fangað hvort tveggja kosti og galla heimavinnunnar. Mörg okkar ná betri einbeitingu heima, við upplifum minni vinnutengda streitu og náum að stýra deginum betur. Almennt fer styttri tími í fundi, forgangsröðun verkefna er skarpari, betri fókus er á verkefni sem skapa virði og meiri tíma er varið með ytri aðilum og viðskiptavinum. Niðurstaðan er sú tilfinning að verið sé að ná betri árangri, vinnustaðnum til heilla. Að ná árangri er líka það sem skilar flestum starfsánægju og rannsóknir sýna að fólk sem vinnur að hluta til heima er ánægðara í starfi. Þetta sést líka í grjóthörðum tölum því starfsmannavelta er minni þar sem fólk vinnur heima að hluta.

Enn fleiri kostir en líka gallar

Sú jákvæða upplifun sem næði, einbeiting og stjórn á deginum gefur starfsfólki í heimavinnu skapar einnig betra jafnvægi á milli einkalífs og vinnu. Þá eru lífsgæði fólgin í því að þurfa ekki að verja miklum tíma í að ferðast í og úr vinnu.

Ótalinn er ábatinn fyrir umhverfið. Færri ferðir til vinnu og frá minnka kolefnissporið, fækka bílum á götunum og draga úr loftmengun vegna umferðarinnar. Þar sparast líka ferðakostnaður og enn til viðbótar dregur úr neyslu og sparast sumum peningur við að borða heima í hádeginu. Til lengri tíma getum við líka séð fyrir okkur að fyrirtæki komist af með minna húsnæði af tveimur ástæðum; færri eru að jafnaði á staðnum og fleiri viðskiptavinir komast upp á lag með að nýta sér rafræna þjónustu í stað þess að koma á staðinn. Allt þetta kemur umhverfinu til góða því minna þarf að ræsta með tilheyrandi efnanotkun.

En heimavinna alla daga hefur líka ókosti. Við erum fjölbreyttur hópur sem búum með fjölbreyttum hætti. Húsnæði, heimilisfólk og aðstæður allar eru allskonar. Fólk upplifir skort á persónulegum tengslum og aðgengi að stjórnendum er minna en áður. Mörgum finnst erfiðara að takast á við hugmyndavinnu, skapandi lausnir og önnur verkefni sem krefjast náinnar samvinnu. Þrátt fyrir góðar tæknilausnir þá verður til galdur þegar við hittumst, jafnvel á kaffistofunni, og rafræna þjónustan er vissulega ekki eins persónuleg og sú sem veitt er yfir borðið.

Allskonar skiptir máli, líka búseta

Hjá Orkuveitu Reykjavíkur starfa rúmlega 500 manns. Ef um helmingur þess er skrifstofufólk sem hefur tök á og velur heimavinnu að hluta, má gera ráð fyrir að um 20% starfsfólks sé í heimavinnu dag hvern. Til þess að missa ekki af margvíslegum ávinningi og styðja við nýja normið hefur Orkuveitan ákveðið að bjóða því starfsfólki sem það kýs að gera skriflegt samkomulag sem lýsir skuldbindingu beggja við heimavinnunna. Við viljum ekki láta þetta dauðafæri til að auka ánægju starfsfólks og bæta umhverfið fara forgörðum. Gagnkvæma skuldbindingin skiptir máli því á henni má byggja ákvarðanir um nauðsynlegan húsakost fyrirtækisins og nauðsynlegan stuðning við að vinnuaðstaðan heima fyrir sé sem best og heimavinnan þannig raunverulegur valkostur, ekki bara nauðsyn á sóttvarnartímum.

Þetta er ekki eingöngu ávinningur fyrir fyrirtækið og starfsfólkið heldur miklu stærra samfélagsmál sem Orkuveitan ætlar að vinna að. Í þeirri umfangsmiklu grunnþjónustu sem Orkuveita Reykjavíkur sinnir verðum við að hafa fjölbreyttan hóp starfsfólks ekki bara hvað varðar þekkingu, kyn og aldur heldur miklu fleiri þátta. Horft er til okkar til dæmis vegna árangurs okkar í jafnréttismálum. Það sem við gerum hefur því áhrif víðar. Það felast tækifæri í því fyrir Orkuveituna að fleiri hafi möguleika á að starfa hjá fyrirtækinu en þau sem búa á suðvesturhorninu. Faraldurinn hefur kennt okkur að miklu fleiri störf en við héldum eru ekki staðbundin og við erum opnari fyrir því en áður að starfsfólk sinni sínu frá norðausturhorninu, Vestfjörðum eða útlöndum. Orkuveita Reykjavíkur ætlar því að gera heimavinnu að normi í vinnumenningunni og verða með því enn fjölbreyttari, sveigjanlegri og umhverfisvænni vinnustaður og stuðla þannig að því að á Íslandi verði fjölbreyttari, sveigjanlegri og umhverfisvænni vinnumarkaður. Það þurfti heimsfaraldur til að ýta við okkur.

Sólrún Kristjánsdóttir

Sólrún Kristjánsdóttir

framkvæmdastýra Mannauðs og menningar hjá OR

Hólmfríður Sigurðardóttir

Hólmfríður Sigurðardóttir

umhverfisstýra OR