Rafmagnssölusamningur Orkuveitu Reykjavíkur og Norðuráls opinber

28. jan 2021

Orkuveitan

Samkomulag hefur náðst á milli Orkuveitu Reykjavíkur og Norðuráls um að aflétta trúnaði um rafmagnssölusamning fyrirtækjanna frá árinu 2008. Samninginn, sem er á ensku, má nálgast á heimasíðu OR.

Samningurinn, sem er sá fyrsti af þessum toga sem er birtur opinberlega, var upphaflega gerður vegna fyrirhugaðs álvers í Helguvík en rafmagnið hefur verið notað í álveri Norðuráls á Grundartanga.

Í umræðunni í áratug

Orkuveita Reykjavíkur fór þess á leit við Norðurál á árinu 2010 að trúnaði af rafmagnssölusamningum yrði aflétt. Á það var ekki fallist og taldi Norðurál á þeim tíma að það hefði skaðleg áhrif á samkeppni ef rafmagnsverðið yrði gert opinbert. Það var svo í nóvember 2020 að samsvarandi ósk barst Orkuveitu Reykjavíkur frá Norðuráli. Á fundi stjórnar OR í sama mánuði var einhugur um að verða við beiðninni. Samið var um viðauka við upphaflega samninginn þar sem trúnaðarákvæði hans er fellt niður.

Mikilvægir almannahagsmunir

„Rafmagnsvinnsla, sala rafmagns og nýting mynda eina helstu stoð atvinnulífs hér á landi. Það eru því ótvíræðir almannahagsmunir af auknu gegnsæi í þessum viðskiptum, ekki síst í ljósi þess að stærstu orkufyrirtækin eru í almannaeigu,“ segir Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur. „Þetta er fyrsta skrefið af vonandi fleirum í þá átt að opinber umræða um þessa stóru, gömlu samninga sé byggð á staðreyndum en ekki getgátum eða flökkusögum.“

Samningurinn barn síns tíma

Um þennan tiltekna samning segir Bjarni að hann sé barn síns tíma. „Það hefur reynst OR óhagstætt hvernig álverð hefur þróast. Einnig er flutningsgjald innifalið í samningsverðinu við Norðurál þannig að OR hefur borið alla áhættu af þróun flutningskostnaðar. Svona samningur yrði ekki gerður í dag,“ segir Bjarni.

Rafmagnsverðið í samningnum er tengt álverði á markaði og felur þannig í sér áhættuskiptingu á milli seljanda og kaupanda. Verðið ber þess merki að samningurinn var upphafssamningur til að fá fjárfestingu í nýju álveri hingað til lands. Í töflunni að neðan má sjá rafmagnsverðið í bandaríkjadölum á megavattstund miðað við alþjóðlega spá frá því um það leyti að samningurinn var gerður og síðan álverðið eins og það er í dag. Taflan sýnir það rafmagnsverð sem viðkomandi álverð skilar samkvæmt samningnum, þá er flutningskostnaður og loks sá hlutur verðsins sem skilar sér til OR.

forsendur.jpg

„Þetta verð er alltof lágt og stendur ekki undir þeirri eðlilegu arðsemiskröfu sem eigendur OR gera,“ segir Bjarni.

Samningurinn, sem nú er almenningi aðgengilegur, er um sölu á 47,5 megavöttum rafmagns. Það eru um 18% af rafmagnssölu OR til Norðuráls og um 11% af rafmagnsvinnslu OR. Aðrir rafmagnssölusamningar OR við Norðurál eru sameiginlegir með HS Orku, sem ekki hefur samþykkt að aflétta trúnaði.