Brynhildur gefur skosku heimastjórninni ráð

6. mar 2020

Orkuveitan
© Ljósmynd af Twitter-síðu Nicolu Sturgeon

Brynhildur Davíðsdóttir, formaður stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur, hefur verið skipuð í ráðgjafaráð skosku heimastjórnarinnar í efnahagsmálum. Þetta er mikill heiður, segir Brynhildur í samtölum við fjölmiðla, en aðalstarf hennar er sem prófessor við Háskóla Íslands í umhverfis- og auðlindafræðum.

Það er um tugur fólks sem situr í ráðinu og starfar það í umboði Nicolu Sturgeon, forsætisráðherra skosku heimastjórnarinnar. Brynhildur sat sinn fyrsta fund með ráðinu í gær. Ljósmyndin, sem fengin er af Twitter-síðu Sturgeon, var tekin við það tækifæri. Á henni eru Brynhildur, lengst til vinstri, Sturgeon í miðju og til hægri er Martine Durand, fyrrverandi yfirmaður tölfræðiupplýsinga hjá OECD.

Í ráðinu er fræðafólk á ýmsum sviðum og stjórnendur úr atvinnu- og fjármálalífi. Í samtali við mbl.is segist Brynhildur koma inn í ráðið sem sérfræðingur í loftslagsmálum og orkuskiptum. Brynhildur er einmitt varaformaður loftslagsráðs Íslands. Hún segir Skota hafa sett sér metnaðarfull markmið í loftslagsmálum, að hafa dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda um 75% árið 2030 og 90% árið 2040. Á vettvangi stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur hefur Brynhildur einnig beitt sér í loftslagsmálum og orkuskiptum. Á síðasta ári uppfærði stjórn OR loftslagsmarkmið samstæðunnar þannig að kolefnishlutleysi verði náð árið 2030 og þrjú af fyrirtækjunum innan samstæðunnar hafa sérstaklega beitt sér í að auðvelda fólki orkuskipti í samgöngum – Orka náttúrunnar, veitur og móðurfélagið, Orkuveita Reykjavíkur. Þetta gera fyrirtækin með ýmsum hætti, hvert á sínu starfssviði.

Hlutverk skoska ráðgjafaráðsins er, að sögn Brynhildar, að veita álit á ýmsum áformum og áætlunum skosku heimastjórnarinnar og hittir Nicolu Sturgeon að minnsta kosti tvisvar á ári til skrafs og ráðagerða.

„Það er heiður að geta mögulega látið gott af sér leiða með þeirri reynslu sem maður hefur byggt upp hér heima og erlendis, það er í raun stórkostlegt að fá tækifæri til þess,“ segir Brynhildur í viðtali við mbl.is í tilefni af skipuninni.