Ár­bæjar­lón

4. des 2020

Orkuveitan

Elliðaárstöðin, sem er meðal merkilegustu mannvirkja okkar, bæði frá sjónarhóli tæknisögu og byggingarlistar, var vígð árið 1921. Stöðin er um 3 MW að stærð. Hún markaði upphaf rafvæðingar í Reykjavík og breytti niðdimmri nótt í nýtan dag ef svo mætti segja. Íbúar í vaxandi höfuðborg gátu nú lokað hlóðaeldhúsum, reykmettuðum og heilsuspillandi kytrum, og eldað matinn á rafhellu við rafljós.

Allt hefur sinn tíma. Rafmagnsþörfin í höfuðborginn óx hröðum skrefum og árið 1937 hóf Ljósafossstöð rekstur, svo Írafossstöð og loks Steingrímsstöð, en allar eru þær í Soginu, sem fellur úr Þingvallavatni. Við þetta dró verulega úr mikilvægi Elliðaárstöðvar.

Elliðaárstöð var rekin til ársins 2014. Þá féll aðrennslispípa virkjunarinnar saman, en pípan flutti vatn úr inntakslóni að baki Árbæjarstíflu, niður í aflvélar stöðvarinnar. Reynt var að gera við pípuna en það tókst ekki. Árið 2014 var efnahagur Orkuveitu Reykjavíkur þröngur eftir hrunið en horft var til þess að endurræsa Elliðaárstöð þegar fjárhagurinn batnaði. Haustið 2019 lá endanleg áætlun um endurræsingu fyrir. Kostnaður var metinn um einn milljarður króna og að tap yrði á rekstri stöðvarinnar til frambúðar. Því var fallið þá frá þeirri hugmyndi að endurræsa stöðina.

Ljóst er að Elliðaárstöð hefur lokið hlutverki sínu. Hverjar eru skyldur orkufyrirtækis við þær aðstæður að vatnsaflsvirkjun hefur verið aflögð? Í mínum huga eru þær ljósar. Eiganda Elliðaárvirkjunar ber að þakka fyrir 100 ára nytjar Elliðaánna, taka til eftir sig og skila dalnum eins nálægt því ástandi sem hann var í fyrir virkjun og kostur er. Árbæjarstíflan, fallpípan frá stíflu niður í Elliðaárstöð og svo stöðin sjálf eru allt friðuð mannvirki og því má hvorki hrófla við þeim né gera á þeim breytingar nema með leyfi Minjastofnunar Íslands.

Lón að baki Árbæjarstíflu

Árbæjarlón var svo kallað inntakslón fyrir Elliðaárstöð og þjónaði þeim tilgangi að halda vatnshæð stöðugri og tryggja lámgarksmiðlun vatns til að svara álagi vélanna í stöðinni hverju sinni.

Tilgangur lónsins er nú horfinn. Orkuveitan telur að henni sé ekki heimilt að trufla náttúrulegt rennsli Elliðaánna nú þegar rekstur Elliðaárstöðvar hefur verið lagður af enda eru heimildir í starfsleyfi, lögum og reglugerðum sem um rekstur stöðvarinnar fjalla bundnar því að stöðin sé í rekstri.

Að safna upp vatni ofan við manngerða stíflu veldur hættu fyrir íbúa, sérstaklega að vetri þegar lónið leggur og fyrir fólk, náttúru og eignir neðan stíflunnar allt árið. Elliðaárdalurinn er eitt vinsælasta útivistarsvæði borgarinnar og að jafnaði er þar fjöldi fólks. Bresti stíflan skyndilega getur það valdið miklu flóði í dalnum neðan hennar. Elsti hluti stíflunnar er frá árinu 1921 en verulegar endurbætur voru gerðar á henni í kjölfar mikilla flóða í Elliðaánum árið 1968. Nýleg könnun á öryggi Árbæjarstíflu sýnir að hún sé tiltölulega traust.

Margvísleg náttúufræðileg rök styðja að hætt sé að trufla rennsli Elliðaánna, nú þegar rekstur Elliðaárstöðvar hefur verið lagður af og þörf fyrir lónið vegna rafmagnsvinnslu er ekki lengur fyrir hendi. Hafrannsóknastofnun hefur lagt það til við OR um árabil að Árbæjarlónið verði tæmt endanlega og Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur segir orðrétt í minnisblaði sínu 9. nóvember í ár: “Þar sem ekki er þörf fyrir stífluna þegar rafmagnsframleiðslu er hætt er það því liður í að færa árnar aftur til upprunalegs horfs að hætta að takmarka rennsli þeirra með stíflumannvirki.“

Fyrir þau sem vilja kynna sér þennan þátt málsins betur vísa ég í nýlega grein á vef Hafrannsóknarstofnunar: https://www.hafogvatn.is/is/midlun/frettir-og-tilkynningar/arbaejarlonid-og-lifrikid

Orkuveita Reykjavíkur gerir sér grein fyrir því að um tæmingu lónsins eru deildar meiningar enda má gera ráð fyrir því að flestu fólki sem býr á bökkum þess og útivistarfólki almennt sé mikil eftirsjá í því.

Stýrihópur með fulltrúum íbúa í Árbæ og Breiðholti, Reykjavíkurborgar og OR og hefur nú verið settur á laggirnar. Hópurinn hefur það hlutverk að leggja fram tillögur um hvernig best sé að skila dalnum nú þegar lónið hefur verið tæmt og vinnslu rafmagns hætt.

Metnaður Orkuveitu Reykjavíkur stendur til þess að ganga vel frá í dalnum og þakka fyrir 100 ára nytjar ánna. Við munum því vinna af áhuga með stýrihópnum og bíðum spennt eftir tillögum hans. Hópnum er gert að skila af sér fyrir lok maímánaðar 2021.