CarbFix í lokaúrtaki til alþjóðlegra jarðhitaverðlauna

6. feb 2020

Orkuveitan

CarbFix kolefnisbindingarverkefnið við Hellisheiðarvirkjun Orku náttúrunnar er eitt fimm framúrskarandi jarðhitaverkefna sem Evrópska jarðhitaráðið hefur valið í lokaúrtak til Ruggero Bertani nýsköpunarverðlaunanna.

Í frétt frá ráðinu segir að verðlaunin séu veitt fyrirtækjum sem sem hafa átt einstakt framlag til jarðhitanýtingar, hvort sem það er vöruframboð, vísindarannsókn eða frumkvöðlaverkefni. CarbFix fellur í raun í alla þessa flokka en aðferðin er iðnaðarlausn til að glíma við loftslagsvána sem byggir á víðtækum vísindarannsóknum. Hún felur í sér að koltvíoxíði sem annars hefði borist í andrúmsloftið er blandað saman við vatn, því dælt niður í basaltberg þar sem gróðurhúsalofttegundin breytist í stein. Orkuveita Reykjavíkur hefur nú stofnað sérstakt dótturfélag um aðferðina til að stuðla að sem mestri útbreiðslu hennar.

Á meðal annars framtaks sem tilnefnt er til verðlaunanna má nefna vinnslu liþíums úr jarðhitavökva, nýbreytni við boranir og tilraunir til sporlausrar vinnslu rafmagns og varma úr jarðhita í Þýskalandi.

Verðlaunin verða afhent í byrjun næsta mánaðar.