Rafmagnsvinnslu í Elliðaárstöð lokið að sinni

1. apr 2020

Orkuveitan

Hugmyndir Orkuveitu Reykjavíkur um raforkuvinnslu í Elliðaánum með nýrri lítilli rafstöð hafa verið settar til hliðar, að svo stöddu að minnsta kosti. Könnun á möguleikanum leiddi í ljós að áframhaldandi raforkuvinnsla í stöðinni reyndist ekki svara kostnaði.

Rafmagnsframleiðslu var hætt í gömlu Rafstöðinni við Elliðaár árið 2014 eftir að aðfallspípa stöðvarinnar hafði ítrekað bilað. Hún er metin ónýt. Í tengslum við undirbúning OR að fyrirhugaðri sögu- og tæknisýningu í dalnum var skoðað hvort hagkvæmt væri að halda áfram raforkuvinnslu í stöðinni í nýrri aflvél sem komið væri fyrir neðanjarðar við hlið Elliðaárstöðvarinnar. Hún yrði sjálfvirk en raforkuvinnsla með upphaflegu vélunum, sem voru teknar í notkun 1921, var dýr og verð rafmagns frá stöðinni stóðst ekki samkeppni á markaði.

Hugmyndir um nýja aflvél höfðu verið kynntar stjórnvöldum og fleiri. Frekari könnun og forhönnun á vinnslunni leiddi í ljós að orkuvinnsla í ánum, með þeim eðlilegu umhverfiskröfum sem til hennar á að gera, myndi ekki svara kostnaði. Þess vegna hefur OR ákveðið að setja hugmyndirnar til hliðar en einbeita sér að undirbúningi sögu- og tæknisýningar þar sem hin merku mannvirki tengd þessari fyrstu virkjun Reykvíkinga verða gerð almenningi aðgengilegri. Unnið hefur verið að hönnun hennar með sigurvegurum í samkeppni sem haldin var snemma árs 2019.