Vel fylgst með fiskigengd í Árbæjarkvísl í sumar

11. jún 2021

Orkuveitan

Í sumar verður Árbæjarkvísl Elliðaáa fær fyrir fiskigöngur en fiskur gekk síðast upp þessa kvísl upp úr miðri síðustu öld. Þessi gönguleið verður viðbót við leiðina um Breiðholtskvísl sem lax og urriði hafa reitt sig á um áratugaskeið á leið sinni upp árnar.

Til að fyrirbyggja mögulega gönguhindrun fiska við lokurnar í Árbæjarstíflu mun Árbæjarkvíslin nú renna um eina loku af þremur í stíflunni í stað þess að dreifast á þær allar líkt og verið hefur. Er þetta í samræmi við eina af tillögum stýrihóps um Elliðaárdal sem skilaði af sér í vikunni. Með tvær lokur niðri ætti hæð vatnsborðsins í þriðju lokunni að þrefaldast sem auðveldar fiskinum uppgöngu og fyrirbyggir að gönguleiðin verði ófær þegar dregur úr rennsli árinnar á þurrviðraskeiðum að sumri.

Afmörkun rennslis Árbæjarkvíslar um eina loku fram í enda október er gerð með leyfi Fiskistofu og samkvæmt ráðleggingum Hafrannsóknastofnunnar, sem verið hefur umsagnaraðili vegna breytinga á Árbæjarlóninu.

Orkuveita Reykjavíkur, Hafrannsóknastofnun, Stangaveiðifélag Reykjavíkur og rannsóknarfyrirtækið Laxfiskar munu fylgjast með Árbæjarkvíslinni í sumar til að afla upplýsinga um fiskgegnd um ársvæðið. Einnig verður fylgst með hvort grípa þurfi til frekari ráðstafana til að auðvelda för fisks um kvíslina.

Hagur lífríkis ánna er hafður að leiðarljósi í þessum aðgerðum og verður sumarið nýtt til að meta áhrif þeirra á göngur fiska í þessum hluta Elliðaánna.

Mynd: Árbæjarkvísl Ellliðaáa. Myndina tók Atli Már Hafsteinsson.