Nemendur Háskólans í Reykjavík leysa verkefni Nesjavallavirkjunar

6. maí 2024

Orkuveitan

Sjö nemendur úr Vél- og Orkutæknifræði við Háskólann í Reykjavík vinna nú með vísindafólki Orkuveitunnar. Um er að ræða þriggja vikna námskeið í varma- og straumfræði þar sem okkar fólk leggur ákveðið verkefni fyrir hópinn sem þau leysa með því að hanna og smíða búnað.

„Verkefnið í ár snýr að betri nýtingu varmaorku í Nesjavallavirkjun og er markmiðið að auka getu okkar til þess að framleiða heitt vatn til hitaveitu,“ segir Baldur Brynjarsson verkefnastjóri nýsköpunarverkefna hjá Orkuveitunni.

„Til þess þurfum við að nýta jarðhitavatnið niður í hitastig þar sem útfelling kísils á sér stað í töluverðum mæli. Þeirra verkefni er því að hanna og smíða tilraunabúnað þar sem við getum gert tilraunir með nýtingu jarðhitavatns við lægri hitastig. Þannig er hægt að þróa aðferðir til þess að sporna við því að útfelling stöðvi rekstur varmaframleiðslubúnaðar eða valdi útfellingu í niðurdælingarkerfum virkjunarinnar,“ segir Haukur Darri Hauksson sérfræðingur í auðlindastýringu hjá Orkuveitunni.

Haukur segir verkefnið falla vel að einu af stefnumarkmiðum Orku náttúrunnar, dótturfélags Orkuveitunnar, sem snýr að því að nýta betur og nota minna.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Orkuveitan vinnur með nemendum Háskólans í Reykjavík því í fyrravor fengum við til okkar fimm nemendur til þess að hanna fyrir okkur og smíða nýja blöndunartilraunasúlu sem sett var upp á Nesjavöllum og munu tilraunir hefjast í sumar.

„Ein úr nemendahópnum frá því í fyrra var einmitt hjá okkur í starfsnámi í vetur og verður síðan sumarstarfsmaður hjá okkur í sumar. Hún mun sjá um að keyra búnaðinn sem hún tók þátt í að hanna og smíða,“ segir Baldur að lokum.

RON-vef-2.jpg

RON-vef-3.jpg

RON-vef-4.jpg