Forsetahjónin kíktu í Elliðaárstöð Orkuveitunnar

24. nóv 2023

Orkuveitan
© Jóhanna Rakel

Forsetahjónin Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid komu í heimsókn í Orkuveitu Reykjavíkur í gær, 23. nóvember, ásamt borgarstjóra, Degi B. Eggertssyni og eiginkonu hans, Örnu Dögg Einarsdóttur. Tilefnið var opinber heimsókn forsetahjónanna til Reykjavíkur.

Birna Bragadóttir forstöðukona tók á móti gestunum í Elliðaárstöð og kynnti þau fyrir fjölbreyttri starfsemi samstæðunnar ásamt Sævari Frey Þráinssyni forstjóra OR og fleira starfsfólki. Meðal annarra hittu þau Inga Þór Hafsteinsson, fyrrum, og síðasta vélstjóra Elliðaárstöðvar sem sagði þeim frá sögu og starfsemi rafstöðvarinnar.

Þá fengu forsetahjónin örkynningar á ýmsum verkefnum sem við erum að fást við, m.a. frá þeim Baldri Brynjarssyni verkefnastjóra nýsköpunarverkefna, Einari Þórarinssyni framkvæmdastjóra Ljósleiðarans og Ellen Ýri Aðalsteinsdóttur framkvæmdastýra mannauðs og menningar hjá OR sem fór yfir jafnréttismálin.

Í lok heimsóknar söng sönghópur OR fallegan jólasöng fyrir gesti inni á kaffihúsinu Á Bístró og voru gestunum afhentar gjafir, forseti og borgarstjóri fengu Agndofa húsilminn sem er innblásinn af náttúrunni á Henglinum og endurskinsmerki Elliðaárstöðvar og Eliza og Arna fengu sitthvorn litinn af trefli sem hannaður er fyrir Elliðaárstöð af Elísabetu Jónsdóttur, upplifunar- og viðburðastjóra Elliðaárstöðvar í samstarfi við Tertu.

Við þökkum forsetahjónunum og borgarstjóra og eiginkonu hans kærlega fyrir góða og skemmtilega heimsókn og var okkur heiður af því að taka á móti þeim.