Fyrsti laxinn 2022 úr Elliðaánum í morgun

20. jún 2022

Kamila Walijewska og Marco Pizzolato Reykvíkingar ársins 2022 og sem Einar Þorsteinsson, formaður borgarráðs.
Kamila Walijewska og Marco Pizzolato Reykvíkingar ársins 2022 og sem Einar Þorsteinsson, formaður borgarráðs.

Annar Reykvíkinga ársins landaði fyrsta laxinum úr Elliðaánum þetta sumarið í súldinni í morgun. Vel lítur út með veiðina meðal annars vegna þess að fyllingu og tæmingu Árbæjarlóns hefur verið hætt.

Það var býsna veiðilegt á bökkum Elliðaánna í morgun þegar Reykvíkingar ársins renndu þar fyrir lax, þokusúld, nokkuð vatn í ánum og talsvert af fiski genginn í þær. Það eru þau Kamila Walijewska og Marco Pizzolato sem Einar Þorsteinsson, formaður borgarráðs, kynnti sem Reykvíkinga ársins en sá siður hefur verið hafður á því árið 2011 að Reykvíkingar ársins opna árnar. Þau Kamila og Marco eru forsprakkar Freedge.org hér á landi. Það er alþjóðleg hreyfing hvers markmið er að draga úr matarsóun og byggja upp sterkara samfélag í kringum það að deila umframmat í gegnum frísskápa.

Kamila dró fyrsta fiskinn úr ánum úr Breiðunni á níunda tímanum í morgun. Útséð er þó með að hann rati í ísskápa freedge.org þar sem varlega er farið í veiðina í Elliðaánum. Einungis er veitt með flugu og öllum laxi skal sleppt. Þá kom fram hjá Jóni Þór Ólasyni, formanns Stangaveiðifélags Reykjavíkur í morgun að rannsóknir sýni að klak í ánum hafi á liðnu ári verið það besta á öldinni sem lofi góðu fyrir sumarið og framhaldið. Í vetur var frá því sagt að með því að rekstri Árbæjarlóns hafi verið hætt hafi klak hafist á ný í Árbæjarkvísl.