Carbfix fær loftslagsviðurkenningu

27. nóv 2020

Orkuveitan

Carbfix, nýsköpunarfyrirtæki sem dregur úr loftslagvánni með því að við að breyta koldíoxíði í stein, hlaut í dag sérstök nýsköpunarverðlaun loftslagsviðurkenningar Festu og Reykjavíkurborgar. Edda Sif Pind Aradóttir, framkvæmdastýra Carbfix, segir viðurkenninguna mikla hvatningu fyrir nýstofnað fyrirtæki sem  keppist við að færa út kvíarnar enda sé ekki vanþörf á því.

Það var Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sem tilkynnti um viðurkenninguna á árlegum loftslagsfundi Reykjavíkurborgar og Festu – miðstöðvar um samfélagsábyrgð. Saman gengust borgin og Festa fyrir því árið 2015 að safna skuldbindingu fleiri en 100 íslenskra fyrirtækja við Loftslagsyfirlýsingu sem síðan var lögð fram á Parísarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál.

Carbfix, sem er dótturfyrirtæki Orkuveitu Reykjavíkur, tók til starfa í upphafi ársins. Fyrirtækið vinnur með þá byltingarkenndu aðferð í loftslagsmálum, sem þróuð var meðal annars í samstarfi við Háskóla Íslands, að binda koldíoxíð sem stein í basaltberglögum. Aðferðin á sér talsverða sögu við Hellisheiðarvirkjun Orku náttúrunnar og hlutverk Carbfix er að breiða út notkun hennar til að stemma stigu við loftslagsvánni.

edda tekur á móti verðlaunum festu.jpg

Í rökstuðningi dómnefndar segir meðal annars um framlag Carbfix:

Með byltingarkenndri tækni Carbfix hefur fyrirtækið frá árinu 2007 bundið hátt í 70.000 tonn af koldíoxíði í bergi. Nýsköpun á vegum Carbfix hefur leitt til þess að tækni þróuð á Íslandi er nú í alþjóðlegu einkaleyfaferli. Auk þess hefur Carbfix vakið athygli innan og utan landsteinanna og hefur hlotið alþjóðleg verðlaun fyrir aðferðina sem þróuð hefur verið, meðal annars Nýsköpunarverðlaun evrópska jarðhitaráðsins. 

„Við erum mjög stolt af þessari viðurkenningu frá Festu og Reykjavíkurborg og þakklát fyrir þá hvatningu sem í henni felst,“ sagði Edda Sif í tilefni viðurkenningarinnar. „Upp á síðkastið, þegar heimsbyggðin hefur verið að stríða við heimsfaraldurinn, hefur loftslagsváin mátt víkja úr opinberri umræðu. Núna sjáum vonandi út úr kófinu. Þá er áríðandi að við einhendum okkur í að breyta því sem við þurfum að breyta til að bægja vánni frá. Ef það eitthvað sem kórónuveiran hefur kennt okkur þá er það að við getum alveg breytt ýmsu sem við héldum að væri greypt í stein. Við hjá Carbfix þökkum fyrir okkur og höldum ótrauð áfram að greypa koldíoxíð í stein, í eiginlegri og óeiginlegri merkingu.“

Sjá einning: Landspítali hlýtur Loftslagsviðurkennigu 2020

festa.jpg