Orkuveitan sækir um leyfi til rannsókna á jarðhita í Meitlum og Hverahlíð II

14. des 2023

Orkuveitan
Horft til norðurs yfir Hengilssvæðið með Hverahlíð í forgrunni.
© Einar Örn Jónsson

Orkuveita Reykjavíkur hefur sótt um rannsóknarleyfi til Orkustofnunar til rannsókna á jarðhita í Meitlum og Hverahlíð II til 10 ára.

Þörf er á frekari orkuvinnslu í Hengli á næstu áratugum, bæði til að mæta sívaxandi eftirspurn eftir heitu vatni og til að viðhalda og jafnvel auka rafmagnsframleiðslu.

Núverandi orkuvinnslusvæði standa ekki undir vexti í eftirspurn eftir heitu vatni miðað við spár um íbúaþróun. Einnig eru horfur á verulegri stækkun raforkumarkaðar vegna markmiða um að Ísland verði kolefnishlutlaust árið 2040. Auðlindir okkar sem nú eru nýttar á núverandi vinnslusvæðum á Hengilssvæðinu hafa endanlegan líftíma og í óbreyttri mynd mun framleiðslan þar minnka.

Verið að nýta svæði sem eru nú þegar í rammaáætlun

Áður en farið er í frekari orkuvinnslu þarf að rannsaka og virkja nýjar jarðhitaauðlindir og því hefur OR sótt um rannsóknarleyfið í Meitlum og Hverahlíð II sem bæði falla í nýtingarflokk rammaáætlunar, með nýtingu til raforkuframleiðslu og/eða varmaframleiðslu í huga.

OR óskar jafnframt eftir því að Orkustofnun veiti í rannsóknarleyfinu fyrirheit um forgang að nýtingarleyfi fyrir hitaveitu í allt að tvö ár eftir að gildistíma rannsóknarleyfis lýkur og að öðrum aðila verði ekki veitt rannsóknarleyfi á þeim tíma.

Veitur dótturfyrirtæki OR ber skylda til að tryggja nægjanlegt vatn til hitaveitu, orkuskiptum í húshitun lýkur ekki meðan fólki fjölgar og horfa þarf til allra kosta til að auka við hitaveituna. Að sama skapi hefur eftirspurn eftir rafmagni á Íslandi sjaldan verið meiri og hefur Orka náttúrunnar, annað dótturfyrirtæki OR, gegnt stóru hlutverki í því að tryggja orkuöryggi og að framboðið anni þeirri miklu, og vaxandi, eftirspurn.

Markmiðið að tryggja umhverfisvæna orku til framtíðar

„Við hjá OR erum í rannsóknarvegferð og gerum áætlanir langt fram í tímann. Það er gríðarlega mikil óvissa í jarðvísindum og við viljum reyna að lágmarka þessa óvissu eins og við getum með því að afla frekari upplýsinga. Rannsóknir á nýjum jarðhitaauðlindum þurfa að fara fram með góðum fyrirvara svo unnt sé að grípa til auðlindanna í tæka tíð til að mæta eftirspurn og halda áfram þeirri orkuskiptavegferð sem íslenskt samfélag hefur verið á síðastliðna öld segir Hera Grímsdóttir, framkvæmdastýra Rannsókna og nýsköpunar hjá OR.

„OR og dótturfélög leggja mikla áherslu á að lágmarka áhrif á umhverfi, náttúru og samfélag. Markmið fyrirhugaðra rannsókna er að geta tryggt næga orku svo við getum hitað upp húsin okkar og framleitt rafmagn með umhverfisvænum hætti til framtíðar,“ segir Sævar Freyr Þráinsson forstjóri OR.