Bryndís Ísfold leiðir Samskipti og samfélag

3. jan 2020

Orkuveitan
© Íris Dögg Einarsdóttir

Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir hefur verið ráðin forstöðumaður Samskipta og samfélags hjá Orkuveitu Reykjavíkur. Einingin er ný og hlutverk hennar er að sjá um samskipta- og markaðsmál hjá samstæðu Orkuveitu Reykjavíkur. Auk móðurfélagsins tilheyra henni dótturfyrirtækin Veitur, Orka náttúrunnar, Gagnaveita Reykjavíkur og CarbFix.

Bryndís er með BA gráðu í stjórnmálafræði og BS gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands. Þá lauk hún meistaragráðu í herferðastjórnun frá Fordham University í New York. Síðustu tvö árin hefur hún starfað sem ráðgjafi og við stjórnendaþjálfun hjá ráðgjafafyrirtækinu Aton.JL, meðal annars fyrir fyrirtæki innan samstæðu OR. Þá er hún aðjúnkt við Háskólann á Bifröst og kennir nemendum í Miðlun og almannatengslum við skólann.

Bryndís Ísfold bjó og starfaði í Bandaríkjunum í fimm ár þar sem hún vann sem ráðgjafi fyrir frambjóðendur og félagasamtök, meðal annars á sviðum umhverfismála og mannréttindamála. Áður en hún fluttist utan starfaði hún hér á landi við almannatengsl og blaðamennsku. Bryndís var varaborgarfulltrúi og sat í ýmsum ráðum og nefndum hjá Reykjavíkurborg til ársins 2009 og gegndi starfi framkvæmdastjóra Já Ísland í rúm tvö ár.

Starf forstöðumanns Samskipta og samfélags hjá OR var auglýst í október síðastliðnum og sóttu 55 um. Bryndís hefur störf um næstu mánaðamót.