Okkar konur tóku við Jafnvægisvoginni

12. okt 2022

Orkuveitan
Guðrún Einarsdóttir frá On, Erna Sigurðardóttir frá OR og Sólrún Kristjánsdóttir frá Veitum taka við Jafnvægisvoginni 2022.

Jafnvægisvogin, hreyfiaflsverkefni Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA), hélt í dag stafrænu ráðstefnuna Jafnrétti er ákvörðun, sem streymt var í beinni útsendingu á vefsíðu RÚV. Þar kynnti Eliza Reid forsetafrú viðurkenningarhafa Jafnvægisvogarinnar, en það eru þeir þátttakendur sem hafa náð að jafna kynjahlutfall í efsta lagi stjórnunar (framkvæmdastjórn).

76 fyrirtæki hlutu Jafnvægisvogina í ár en í þeim hópi voru Orkuveita Reykjavíkur, Orka náttúrunnar og Veitur.

Markmið Jafnvægisvogar um 40/60 kynjahlutfall í efsta stjórnendalagi var haft til hliðsjónar við matið í ár. Stór hluti þeirra þátttakenda sem hafa skrifað undir viljayfirlýsingu Jafnvægisvogarinnar hafa náð góðum árangri á þessu sviði og fjölgaði þeim þátttakendum sem hafa náð markmiðunum um 23 á milli ára.

„Við erum afar stolt af því að vera í þessum flotta hópi. Jafnréttismál eru okkur í Orkuveitusamstæðunni hugleikin og það skiptir máli að kynjahlutföllin séu líka jöfn í efsta lagi stjórnunar. Við sjáum það bara að með jafnari hlutfalli fáum við betri ákvarðanir og náum betri árangri,“ segir Erna Sigurðardóttir mannauðsleiðtogi hjá Mannauði og menningu hjá OR.

Er þetta þriðja árið í röð sem Orkuveita Reykjavíkur og Orka náttúrunnar hljóta Jafnvægisvogina en fyrsta skiptið sem Veitur hljóta viðurkenninguna.