28. feb 2024
OrkuveitanOrkuveitan hefur ráðið Snorra Þorkelsson í stöðu framkvæmdastjóra fjármála. Snorri sem býr yfir mikilli alþjóðlegri reynslu kemur til Orkuveitunnar frá Baader á Íslandi og Skaganum 3X en þar áður starfaði hann í rúman áratug sem fjármálastjóri hjá Marel á Íslandi og síðar sem fjármálastjóri fiskiðnaðar hjá Marel. Einnig var Snorri fjármálastjóri Dohop í fjögur ár.
Starf framkvæmdastjóra fjármála var auglýst laust til umsóknar í byrjun desember sl. og var hópur umsækjenda afar fjölbreyttur og taldi 30 einstaklinga.
„Snorri hefur gríðarlega flotta reynslu bæði hérlendis og erlendis sem mun nýtast okkur í Orkuveitunni afskaplega vel. Hans framtíðarsýn og viðhorf fara afskaplega vel með því sem við höfum verið að leggja áherslu á og kemur fram í nýju stefnunni okkar. Ég hlakka til þess að vinna með Snorra,“ segir Sævar Freyr Þráinsson forstjóri Orkuveitunnar.
Snorri sem fæddur er árið 1971 útskrifaðist með BSc. í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík árið 2005 og MAcc í reikningshaldi og endurskoðun frá sama skóla tveimur árum síðar.
Þá hóf hann störf sem fjármálastjóri Marels á Íslandi og síðar fiskiðnaðarins hjá Marel. Starfaði hann þar að ýmsum verkefnum hér heima og erlendis næstu ellefu árin. Meðal annars var Snorri hluti af alþjóðlegu fjámálateymi fyrirtækisins og sat í stjórnum alþjóðlegra fyrirtækja í eigu Marels. Þá var Snorri í stjórn Dohop áður en hann hóf störf þar sem fjármálastjóri árið 2018. Snorri er einnig í stjórn Örtækni.
„Reynsla mín spannar yfir 25 ár og kemur úr bæði stórum alþjóðlegum fyrirtækjum en einnig minni nýsköpunarfyrirtækjum. Það mun tvímælalaust nýtast Orkuveitunni sem er ekki bara spennandi fyrirtæki heldur eitt af þeim allra mikilvægustu í okkar samfélagi. Ég hef kynnt mér nýja stefnu félagsins og hlakka til þess að fá að vera hluti af þeim metnaðarfullu áformum sem eru uppi hjá Orkuveitunni,“ segir Snorri Þorkelsson nýráðinn framkvæmdastjóri fjármála.
Snorri mun hefja störf hjá Orkuveitunni eigi síðar en 1. maí .n.k.