19. feb 2021
OrkuveitanBirna Bragadóttir hefur verið ráðin úr hópi rúmlega 170 umsækjenda til þess að leiða sögu- og tæknisýningu Orkuveitu Reykjavíkur sem opna mun í Elliðaárdal undir merkjum Elliðaárstöðvar síðar á árinu. Birna, sem býr yfir mikilli reynslu sem ráðgjafi og stjórnandi, mun gegna starfi forstöðumanns sýningarinnar sem hugsuð er fyrir fólk á öllum aldri.
„Ég lít á þetta sem spennandi tækifæri til þess að fá að taka þátt í að móta og þróa sögu- og tæknisýninguna í Elliðaárdalnum í samstarfi við fyrirtæki OR og velunnara dalsins, þar sem ungt fólk og fullorðnir geta fræðst um söguna, kynnt sér vísindin og á sama tíma notið þess einstaka útivistasvæðis sem Elliðaárdalurinn er í hjarta borgarinnar.“
Birna er með MBA próf frá Háskólanum í Reykjavík og hefur starfað sem stjórnendaráðgjafi bæði fyrir Capacent og nú síðast hjá fyrirtækinu Befirst. Birna var framkvæmdarstjóri Sandhotel og starfaði við uppbyggingu þess glæsilega hótels við Laugaveg. Birna starfaði jafnframt um langt skeið við mannauðs-, þjónustu og starfsþróunarmál hjá bæði Icelandair og OR.
„Þær væntingar sem ég hef til starfsins er að það takist vel til að setja á fót áhugaverða og skemmtilega sýningu ásamt góðri þjónustu. Dalurinn verði aðlaðandi viðkomustaður fyrir fólk til að fræðast, upplifa og njóta náttúrunnar allan ársins hring. Sem áhuga- og hvatamanneskja um útivist og hreyfingu, þá eru mikil lífsgæði fólgin í því að hafa aðgengi að útivistarperlu eins og Elliðaárdalnum innan borgarinnar. Þar bíða okkar fjöldi tækifæra. Dalurinn býður upp á fjölbreytta útivistarmöguleika sem ég vil gjarnan virkja, þannig að þangað geti fólk komið bæði til þess að viðra sig, njóta náttúrunnar og hlaða batteríin, en einnig til þess að fræðast um dalinn og merka sögu Orkuveitunnar.“
OR býður Birnu hjartanlega velkomna til starfa og hlakkar til þess að vinna með henni að opnun sýningarinnar þar sem börn og fullorðnir fá að fræðast um sögu og vísindi í lifandi leik. Birna kemur til starfa í mars.