Carbfix hefur sparað Orkuveitunni tæpa 15 milljarða á 10 árum

30. jan 2025

Orkuveitan
Sævar Freyr Þráinsson forstjóri Orkuveitunnar.
© Steina Matt

Sævar Freyr Þráinsson forstjóri Orkuveitunnar segir áhuga fjárfesta og viðskiptavina á verkefnum Carbfix mikinn og viðræður gangi eðlilega fyrir sig. Í viðræðum við viðskiptavini sé rætt um langtímasamninga sem nái til a.m.k. 15 ára og hafi möguleika á að skila verulegum efnahagslegum ábata fyrir Ísland og þau sveitarfélög þar sem starfsemi Carbfix yrði starfrækt. Hann segir ávinning Orkuveitunnar af Carbfix nú þegar hlaupa á milljörðum króna og þá sé ótalinn sá viðsnúningur sem hefur orðið á loftgæðum á höfuðborgarsvæðinu.

Gríðarlegur sparnaður af Carbfix
Sævar rifjar upp að á árinu 2018 hafi ávinningur af bindingu jarðhitagass með Carbfix aðferðinni verið reiknaður út með samanburði við aðrar aðgerðir. „Carbfix hefur sparað Orkuveitunni 14,8 milljarða á síðustu 10 árum við hreinsun brennisteinsvetnis. Rekstur- og innviðauppbygging Carbfix að teknu tilliti til styrkja hefur kostað 4,4 milljarða á sama tímabili, sem er staða lánalínu Carbfix við Orkuveituna um síðustu áramót, en sparnaður Orkuveitunnar er langt umfram það,“ segir Sævar Freyr Þráinsson forstjóri Orkuveitunnar.

Hreinn ávinningur fyrir loftslagið og budduna
Árið 2010 var sett reglugerð um leyfilegan styrk brennisteinsvetnis (H2S) í andrúmslofti. Markmið reglugerðarinnar voru að draga úr brennisteinsvetnismengun frá jarðhitavirkjunum og mögulegum neikvæðum áhrifum hennar á heilsu fólks.

Orkuveitan, Landsvirkjun og HS Orka hófu samstarf um lausn H2S vandans, þar sem skoðaðar voru ýmsar lausnir til að draga úr losun H2S frá jarðhitavirkjunum. Meðal þeirra lausna sem voru skoðaðar voru hefðbundnar iðnaðarlausnir sem ýmist umbreyta H2S í brennistein eða brennisteinssýru.

Í kjölfarið setti Orkuveitan á fót rannsóknarverkefnið Sulfix þar sem tækni sem þróuð hafði verið innan Carbfix verkefnisins var nýtt til að fanga og dæla niður H2S. H2S hegðar sér með svipuðum hætti og CO2 m.t.t. uppleysingar í vatni og bindingar í bergi. CO2 myndar karbónöt (t.d. kalsít og silfurberg) í basalti en H2S súlfíð (t.d. glópagull). Tæknin reyndist langtum hagkvæmari og umhverfisvænni en hefðbundnu iðnaðarlausnirnar.

Í Sulfix verkefninu var fýsileiki þess að nýta Carbfix tæknina til að draga úr styrk H2S frá Hellisheiðarvirkjun kannaður. Árangur tilraunaskalareksturs árin 2011-2013 var mjög góður og því var lausnin innleidd á iðnaðarskala árið 2014. Aukið var við föngunar- og niðurdælingargetu árið 2016 og hefur um 75% af H2S (ca. 5000 tonn/ári) og 33% af CO2 (ca. 12.000 tonn/ári) verið fangað og dælt niður síðan.

Fleiri verkefni á teikniborðinu
„Ávinningur almennings og umhverfis af þessari tækni er því umtalsverður og það er afar brýnt að markmið okkar um að skala upp tæknina og nýta hana víðar náist. Við erum að sjá skelfilegar afleiðingar loftslagsbreytinga þessa dagana og það eru svo sannarlega tækifæri fyrir framan okkur sem við verðum að grípa,“ segir Sævar.

Hann segir að burtséð frá augljósum ávinningi loftslagsins getum við Íslendingar komið á fót atvinnugrein sem skipti gríðarlegu máli fyrir þjóðarbúið. „Varlega áætlað er metið að tekjur af einu verkefni Carbfix geti verið 350 milljarðar króna yfir 30 ára líftíma hvers verkefnis og þá eru ekki taldar með tekjur sveitarfélags af hafnargjöldum.“

Þá segir Sævar að Carbfix telji möguleika á allt að fjórum verkefnum hér á landi og áform fyrirtækisins miði að því að þróa slíkt í góðu samstarfi við sveitarfélög og íbúa þeirra.

„Nýjasta dæmið í því er samtal okkar við sveitarfélagið Ölfus um að útvíkka starfsemi Carbfix þar. Við hlökkum til að kynna áform okkar þar og eiga samtal við íbúa í sveitarfélaginu um þá möguleika sem felast í aukinni starfsemi. Carbfix hefur lært mikið á því samtali sem við höfum átt í Hafnarfirði og vonandi tekst okkur að útskýra vísindin þannig að traust skapist og ávinningurinn fyrir fólk og samfélagið sé skýr.“

Carbfix hefur stundað niðurdælingu í sveitarfélaginu á athafnasvæði sínu við Hellisheiðarvirkjun án vandkvæða frá árinu 2012. Alls hefur 75.000 tonnum af koldíoxíði, sem annars væri í andrúmsloftinu, verið dælt niður í borholur í sveitarfélaginu frá árinu 2014.

Hagnýt lofttegund en ekki mengun
Sævar segir mikilvægt að hafa í huga að Carbfix tæknin gangi út á að hraða náttúrulega ferli við bindingu kolefnis. „Þetta eru efnahvörf sem hafa átt sér stað í náttúrunni í milljónir ára og eiga sér stað á hverjum einasta degi. Með tækninni er einfaldlega verið að hraða ferlinu og binda meira magn á skemmri tíma en náttúran gerir. Þetta er ekki mengun og þetta er ekki hættuleg lofttegund í réttu magni. Koldíoxíð er lífsnauðsynlegt efni og ef það er of lítið af því í andrúmsloftinu þá kólnar jörðin. Ef það er of mikið af því í andrúmsloftinu þá hitnar jörðin, eins og við sjáum nú,“ segir Sævar og bætir við að gróðurhúsalofttegundin sé nýtt víða hér á landi m.a. til ræktunar í gróðurhúsum.

„Þá var hún einnig nýtt um hríð hér á landi til eldsneytisframleiðslu og sú hagnýting, til rafeldsneytisgerðar, er talsvert í umræðunni nú.“

Ekki bara frábært viðskiptatækifæri
Sævar segir samtöl við önnur sveitarfélög en Hafnarfjörð og Ölfus hafa átt sér stað og vonast til þess að geta rætt frekari áform fyrirtækisins fljótlega.

„Okkur í Orkuveitunni hefur verið treyst fyrir náttúruauðlindum þessa lands síðustu rúmu hundrað árin og við tökum því hlutverki okkar alvarlega og af ábyrgð. Það er mikilvægt að hafa í huga að Carbfix-tæknin er ekki bara frábært viðskiptatækifæri heldur hefur hún það beinlínis að markmiði að bæta heiminn. Við viljum hjálpa iðnaði sem á erfitt með að breyta framleiðsluferlum sínum í að minnka losun. Þannig stuðlum við að því að framtíðarkynslóðir geti búið við lífsskilyrði sem eru svipuð þeim sem við þekkjum og viljum.“