Carbfix í grein á The Economist

1. okt 2020

Orkuveitan

Hið virta tímarit The Economist gaf út sérstaka umfjöllun um græna tækni (e. Special report: Technology – Green machines) í september þar sem fjallað er um tækniþróun og nýsköpun í baráttunni gegn hamfarahlýnun jarðar. Þar er meðal annars fjallað um íslenska fyrirtækið Carbfix og samstarfsverkefni Carbfix og Climeworks á Hellisheiði.

Til að forðast verstu afleiðingar hamfarahlýnunar þurfa jarðarbúar að fjárfesta gríðarlega í nýsköpun og gera miklar breytingar á innviðum sínum. The Economist fer yfir helstu flokka rannsókna og nýsköpunar á því sviði; frá fæðuöryggi, orkuskilvirkni og endurnýjanlegri orku til fjarlægingar CO2 úr andrúmslofti og geymslu þess - og talin eru upp nokkur af helstu verkefnum og tæknilausnum sem vonir eru bundnar við í heiminum í dag

Gaman er að segja frá því að meðal þessara helstu verkefna er samstarf Carbfix og Climeworks á Hellisheiði, sem vinna nú að því að byggja upp lofthreinsistöð sem mun fjarlægja 4000 tonn af koldíoxíði úr andrúmsloftinu á ári hverju og farga því varanlega með því að dæla því niður í berglög þar sem það steingerist á innan við tveimur árum.

Þá eru sérstakar vonir bundnar við áframhaldandi tækniþróun Carbfix sem felst í að rannsaka hvort hægt sé að binda koldíoxíð í bergi undir sjávarbotni og að slíkt gæti skapað nær ótakmarkaða geymslu. Grein The Economist endar á þeirri umfjöllun og lokaorðin eru að „heimurinn gæti þurft á því að halda“.