28. okt 2020
Orkuveitan
Á morgun, fimmtudaginn 29. október, mun starfsfólk Orkuveitu Reykjavíkur tæma norðurhluta Árbæjarlóns (andapollinn) til frambúðar. Tæmingin er gerð í samráði við Hafrannsóknarstofnun sem hefur lagt til að komið verði á náttúrulegu rennsli í gegnum stífluna, þ.e. að ekki sé átt við lokur til að stýra því og þær hafðar opnar allt árið. Ástæða þessarar breytingar eru vatnsgæðamælingar sem gerðar voru í ánni neðan stíflunnar meðan á tæmingu stóð í vor. Niðurstöður sýndu að þessi árlega tæming á lóninu er ekki æskileg fyrir lífríkið. Í þessu nýja fyrirkomulagi eru hagsmunir lífríkisins hafðir að leiðarljósi enda Elliðaár og dalurinn allur einstök náttúru- og útivistarperla í borg. Við tæmingu lónsins færast árnar nær sinni náttúrulegu mynd til frambúðar.
Undanfarin ár hefur fyrirkomulagið verið þannig að lónið er tæmt á vorin til að opna fyrir fiskgengd í gegnum stífluna. Nokkrum dögum eftir tæmingu lónsins er fyllt upp í norðurhluta Árbæjarlóns (andapollinn) en lokurnar sunnan til hafðar opnar fyrir fiskgegnd fram á haust. Þá er fyllt upp í lónið og það sett á yfirfall yfir veturinn. Nú verður horfið frá þessu fyrirkomulagi enda stíflan rekin út frá hagmunum lífríkisins eftir að raforkuvinnslu í Elliðaárstöð var hætt.
Eftir tæmingu myndast moldarbakki þar sem lónið er og verður það svæði grætt upp. Gert er ráð fyrir að bera fræslægju á svæðið en þá er grasið slegið meðfram bökkum og dreift yfir þann hluta sem var undir lóninu til að flýta fyrir náttúrulegri framvindu staðargróðurs. Þetta er aðferð sem hefur verið notuð á athafnasvæði OR samstæðunnar með góðum árangri. Fuglum á lóninu mun fækka en þeir munu mögulega færa sig upp með ánni. Að öðru leyti ætti fuglalíf ofan lónsins og fyrir neðan Árbæjarstíflu ekki að verða fyrir miklum áhrifum af þessari breytingu. Hægt að kynna sér minnisblað fuglafræðings um áhrif á fuglalíf hér.