20. maí 2021
OrkuveitanElliðaárstöð tekur þátt í HönnunarMars í fyrsta sinn í ár. Þá hefur verið ákveðið að stöðin verði þátttakandi í hátíðinni á komandi árum. Þetta er liður í að fjölga sýningarstöðum og tengja dalinn hönnun og nýsköpun.
Elliðaárstöð mun opna síðar á árinu. Eitt af því sem stöðin mun bjóða uppá er aðstaða fyrir hönnuði til sýninga á HönnunarMars, hvort sem er á torginu við gömlu rafstöðina eða í hólmanum í dalnum.
Birna Bragadóttir forstöðukona Elliðaárstöðvar segir sýn HönnunarMars og Elliðaárstöðvar fara vel saman enda sé erfitt að komast í meira skapandi umhverfi en úti í náttúrunni.
„Eitt sinn var raforka virkjuð í dalnum við gömlu rafstöðina, sem nú hefur lokið upphaflegu hlutverki sínu. Nú ætlum við að virkja nýsköpun, fólk og hugmyndir sem rímar mjög vel við þessa frábæru hátíð. Hönnun, vísindi, náttúran og bara umhverfismál yfir höfuð eru í brennidepli víða og áherslan í hönnun er sjálfbærni og endurnýting – að finna leiðir til þess að búa til sjálfbærara samfélag,“ segir Birna.
Hún segir að stöðin mun standa um ókomna tíð sem tákn um framsýni og framfarir enda hafi hún verið eitt af stóru skrefunum í átt að sjálfbærni Íslands í orkumálum.
Birna segir ennfremur að eitt af því sem Orkuveitan hafi alltaf staðið fyrir sé að gefa til baka og rifjar upp þegar skógrækt hófst í Elliðaárdalnum um miðja síðustu öld. „Þetta rímar svo vel við þessa fallegu sögu þegar starfsfólk rafmagnsveitunnar hóf að græða upp hólmann í dalnum. Mætti eftir vinnu, gróðursetti daglangt og vildi þannig gefa til baka.“
Þórey Einarsdóttir framkvæmdarstjóri HönnunarMars er afskaplega ánægð með að hátíðin verði hluti af Elliðaárdalnum næstu árin.
„Það er einkar gleðilegt að geta boðið gestum HönnunarMars að upplifa Elliðaárdal sem einn af nýjum sýningarstöðum HönnunarMars enda einstök náttúruperla í miðri borg. Það eru sannarlega lífsgæði að geta upplifað spennandi hönnunarverkefni í jafn nærandi umhverfi. Sömuleiðis er virkilega gaman að sjá hversu vel er vandað til verka við uppbyggingu á Elliðaárstöð, þar sem hönnuðir eru í lykilhlutverki sem undirstrikar mikilvægi þess að fá hönnuði að borðinu í upphafi ferlisins. Við hlökkum til samstarfsins á komandi hátíðum.“
Fyrsti viðburður Elliðaárstöðvar er sýningin „Maðurinn í skóginum“ þar sem boðið verður upp á skógargöngur undir leiðsögn um fallegar innsetningar hönnuða. Hægt er að skrá sig á viðburðinn og kynna sér hann frekar hér.