26. ágú 2022
OrkuveitanBjarni Bjarnason forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur tók á móti fjórum forsetum í Hellisheiðarvirkjun í dag. Heimsóknin er hluti af tveggja daga opinberri heimsókn forseta Eystrasaltsríkjanna í boði forseta Íslands.
Bjarni tók á móti hópnum og hélt stutta tölu þar sem hann fór yfir sögu jarðhitans hér á landi og starfsemi virkjunarinnar. Framkvæmdastýrur dótturfélaga OR þær Edda Aradóttir frá Carbfix og Berglind Rán Ólafsdóttir frá ON héldu einnig stuttar kynningar um starfsemi sinna fyrirtækja. Þá hélt Halla Hrund Logadóttir Orkumálastjóri einnig stutta kynningu.
Orkuveita Reykjavíkur er afar stolt af því að ON og Carbfix hafi verið einu fyrirtækin sem hópurinn heimsótti hér á landi.
Auk Guðna Th. Jóhannessonar forseta Íslands heimsóttu þau Egils Levits, forseti Lettlands, og Andra Levite eiginkona hans, Gitanas Nauseda, forseti Litháens og Diana Nausédiené, eiginkona hans, og Alar Karis, forseti Eistlands, og Sirje Karis, eiginkona hans virkjunina í dag.
Tilefni heimsóknarinnar er rúmlega þriggja áratuga afmæli endurnýjaðs stjórnmálasambands, eftir að Ísland varð fyrst ríkja til að viðurkenna á ný sjálfstæði Eistlands, Lettlands og Litháens í kjölfar falls Sovétríkjanna.